Rögnvaldur Ólafsson brýndi fyrir fólki að gefa smitrakningarteymi ítarlegar upplýsingar um ferðir sínar ef það greinist með kórónuveirusmit. Það sé afar mikilvægt því þannig sé hægt að koma í veg fyrir að smit berist áfram út í þjóðfélagið. Það hafi hins vegar borið á því að fólk sé ekki að gefa eins greinargóðar upplýsingar um ferðir sínar og áður.
„Það tekur núna lengri tíma en áður að ná utan um smit og smitkeðjur og við höfum velt fyrir okkur hvort að um smitskömm sé að ræða. Þá höfum við fundið að fólk veigri sér við að nefna að hafa verið á tilteknum stöðum af ótta við að senda fólk í sóttkví. Við hvetjum fólk til að halda alls ekki aftur að slíkum upplýsingum. Við þurfum að vera í samskiptum við alla þá sem voru innan ákveðinna marka frá smituðum einstakling. Ég ítreka eftir sem áður að það er engin ástæða til að hafa smitskömm. Hún er óþörf og getur jafnvel valdið skaða haldi fólk upplýsingum eftir. Það geta allir lent í því að smitast af veirunni,“ segir Rögnvaldur.
Aðspurður um hvort að smitrakningarappið sem margir hafa í símum sínum virki ekki til að bæta við upplýsingum segir Rögnvaldur.
„Smitrakningarappið bætir ekki miklu við þær upplýsingar sem við fáum frá fólki. Það sýnir t.d. ekki hverjir voru í kringum viðkomandi. Best væri ef það væri með bluetooth-tengingu sem tengdist þá sjálkrafa við aðra síma þannig að hægt væri að fá upplýsingar um hverjir voru nálægt viðkomandi. Það er verið að ræða við Google og aðra samfélagsrisa um hvort hægt sé að bæta við þessari lausn,“ segir Rögnvaldur.