Haraldur Rafn Pálsson, eigandi hússins og lögfræðingur, segist í færslu á Facebook vilja koma ákveðnum hlutum á framfæri vegna atburða seinustu daga.
„Eins og eflaust margir vita þá lenti ég í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að missa húsið mitt sem ég hafði nýlega fest kaup á, ásamt öllu mínu innbúi í eldsvoða þann 25. jan s.l. Þessi atburður markaði mikil og djúpstæð áhrif á mig þar sem litlu munaði að ég yrði sjálfur bráð eldsins. Fyrir einhverja óskiljanlega ástæðu vaknaði ég uppúr værum svefni og náði naumlega að átta mig á aðstæðum og koma mér út, án teljandi meiðsla, fyrir utan væga reykeitrun og nokkrar skrámur. Aðeins nokkrar sekúndur réðu þar úrslitum og á tímabili hélt ég að þetta væru mín örlög og endir,“ segir Haraldur í færslu sinni.

„Fyrir það eitt að vera hér frásögufærandi er ég gífurlega þakklátur og get sagt það með heilum hug að ég kann að meta lífið betur og horfi á það með öðrum augum nú en áður.“
Haraldur var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en útskrifaður síðar um morguninn.
„Engin orð eru til sem lýsa því hversu þakklátur ég er fyrir það að eiga góða fjölskyldu að og allra bestu vini sem völ eru á. Án ykkar væri ég ekki heill heilsu í dag og verð ég ykkur ævinlega þakklátur fyrir allt það sem þið hafið gert fyrir mig.“
Afþakkar framlög
Haraldur segist fyrst og fremst tjá sig um málið í forvarnarskyni og biður fólk um að kanna stöðu mála á reykskynjurum og öðrum reykvörnum á heimilum og gera ráðstafanir samkvæmt því.
„Þetta er eitthvað sem engin á von á að gerist hjá sér en getur gerst fyrir alla. Eldsvoði gerir ekki boð á undan sér.“
Þá langar hann að þakka öllum fyrir hugheilar kveðjur en afþakkar öll framlög. Hvetur hann fólk til að fjárfesta í eigin öryggi og hlúa að sínum nánustu.
„Að lokum vil eg taka fram að eg afþakka öll framlög og þess háttar en bið ykkur þess i stað að fjárfesta í ykkar eigin öryggi og hlúa að ykkar nánustu. Það er alls ekki sjálfgefið að eiga gott fólk i kringum sig.“
Ekki náðist í Harald við vinnslu fréttarinnar.