Myndin hér fyrir neðan gefur nokkra innsýn inn í nýsjálenskan veruleika þessa dagana. Tugir þúsunda saman komnir til að hlusta á sveitina SIX60. Engin tveggja metra regla.
Rúna Lind Kuru Kristjónsdóttir býr á Nýja-Sjálandi og segir daglegt líf orðið eins og það var fyrir faraldurinn.
„Það eru tónlistarhátíðir og tónleikar. Það eru allir farnir að faðmast og kyssast aftur. Eina sem er er að landamærin eru lokuð og fólk getur ekki ferðast erlendis.“
Afar fáir smitast
Þeir sem koma þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví í farsóttarhúsi. Í gær komu upp smit á farsóttarhúsi í Auckland en fá sem engin innanlandssmit hafa greinst í landinu síðustu vikur. Rúna segir landsmenn ekki hafa miklar áhyggjur af því að faraldurinn blossi upp aftur.

„Það kemur alveg upp en þá kannski aðallega upp á það að gera að við verðum sett aftur í lockdown. Það eru svo harðar aðgerðir að það þarf ekki mörg smit til að við gætum farið aftur í lockdown,“ segir Rúna.
Hagkerfið á siglingu
Þrátt fyrir lokun landamæranna virðast Nýsjálendingar vera að ná ágætis viðspyrnu í efnahagslífinu. Landsframleiðsla fer vaxandi og neysla hefur aukist töluvert. Horfur eru nokkuð góðar jafnvel þótt Jacinda Ardern forsætisráðherra sagði fyrr í vikunni að landamærin gætu jafnvel verið lokuð út árið.
Rúna segir að fyrir sig, útlending á Nýja-Sjálandi, sé lokun landamærana erfið en þrátt fyrir erfiðleika beri aðgerðirnar árangur. Ágætur gangur sé í ferðaþjónustu, líkt og hér heima í sumar.
„Nýsjálendingar eru bara búnir að vera að ferðast alveg rosalega mikið um landið enda komast þeir ekki til útlanda. Það myndi þá væntanlega geta gerst líka á Íslandi.“