Ísland er í neðsta sæti meðal Norðurlandanna og deilir því sæti með Eistlandi með 75 stig. Danir tróna í efsta sæti með Nýja Sjálandi með 88 stig. Engin þjóð hefur náð upp í hundrað stig, það er að engin spilling sé til staðar.
Þetta var umræðuefni á Alþingi í dag og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, minnti einnig á Panamaskjölin og skipun dómara í Landsrétt. Þá benti hann einnig á nýja könnun sem sýnir að aðeins 23 prósent landsmanna treysta fjármálaráðherra Íslands til þess að fara með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
„Telur hæstvirtur ráðherra að hér séu landsmenn að lýsa tortryggni í garð fjármálaráðherra Íslands yfirleitt, og þá stjórnvalda, að um sé að ræða kerfisvanda, eða telur hæstvirtur fjármálaráðherra, eins og í hinum málunum, að um sé að ræða afmarkaðan vanda og tortryggni í garð fjármálaráðherrans Bjarna Benediktssonar og tengsl hans við eitt af þessum málum í skýrslunni?“ spurði Logi Einarsson Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag.
„Við erum komin dálítið langt frá kjarna máls þegar við erum farin að skiptast á skoðunum um niðurstöður skoðanakannana. Eða ættum við kannski að velta því fyrir okkur hér, myndi það skila okkur eitthvað fram veginn í þágu þjóðarinnar, hvers vegna það skyldi vera að 83–84 prósent þjóðarinnar vilji ekki Samfylkinguna sem valkost við stjórn landsins,“ svaraði Bjarni.