Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Tindastóll 103-104 | Tindastóll vann eftir rafmagnaða spennu Smári Jökull Jónsson skrifar 31. janúar 2021 22:10 Vísir/Elín Björg Tindastóll vann afar mikilvægan sigur á Þór frá Þórlákshöfn á heimavelli þeirra síðarnefndu í kvöld. Leikurinn var framlengdur og það var Nick Tomsick sem tryggði Stólunum sigurinn með þriggja stiga körfu þegar 15 sekúndur voru eftir. Þórsarar byrjuðu leikinn betur í kvöld og leiddu með ellefu stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þeir voru að hitta afar vel á meðan skotin hjá Stólunum voru ekki að detta niður. Tindastóll hefur verið í basli undanfarið og það var líkt og sjálfstraustið í skotunum væri ekki alveg í botni. Leikurinn þróaðist á svipaðan hátt í öðrum leikhluta, Stólarnir náðu að minnka muninn inn á milli en Þórsarar juku hann ávallt á ný. Munurinn var þó sex stig í hálfleik, staðan þá 57-51. Í þriðja leikhluta tók Tindastóll hins vegar yfirhöndina. Þórsarar voru ekki að hitta jafn vel á meðan lykilmenn Tindastóls fóru að stíga upp. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 79-72 fyrir Tindastól og stemmningin þeirra megin. Fjórði leikhluti var síðan æsispennandi. Stólarnir leiddu og virtust ætla að sigla sigrinum heim. Sóknin hjá þeim hrökk hins vegar í baklás undir lokin og þeir skoruðu ekki síðustu þrjár og hálfa mínútu leiksins. Það nýttu Þórsarar sér og með Callum Lawson og Adomis Drungilas í broddi fylkingar náðu þeir að jafna. Tindastóll fékk síðustu sóknina, Nick Tomsick átti að klára með skoti sem og hann gerði en það geigaði og því varð að framlengja. Í framlengingunni voru Þórsarar með yfirhöndina. Þeir hirtu hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og hinu megin á vellinum voru Stólarnir að treysta of mikið á Tomsick sem lenti oft í vandræðum. Stólarnir minnkuðu muninn í tvö stig þegar 23 sekúndur voru eftir og Jaka Brodnik náði síðan að komast inn í sendingu Halldórs Garðars Hermannssonar þegar gestirnir pressuðu á Þórsara. Hann kom boltanum á Tomsick sem setti niður þriggja stiga skot með 15 sekúndur á klukkunni. Þórsarar fengu erfitt skot til að vinna leikinn í lokin en það geigaði og leikmenn Tindastóls fögnuðu gríðarlega, lokatölur 104-103 gestunum í vil. Af hverju vann Tindastóll? Þeir sýndu gríðarlega baráttu lengst af í leiknum og um leið og þeim tókst að loka betur á skot Þórsara fyrir utan þriggja stiga línuna náðu þeir betri tökum á leiknum. Sóknarleikurinn fór sömuleiðis að ganga betur og skotin að detta. Það voru síðan mistök Þórsara undir lok framlengingar sem kostuðu þá sigurinn. Þeir gáfu frá sér boltann klaufalega og Nick Tomsick er fæddur til að setja niður skot eins og það sem hann setti undir lokin. Þessir stóðu upp úr: Hjá Þór var Adomis Drungilas magnaður og skilaði 49 framlagspunktum. Hann skoraði 28 stig og tók 17 fráköst, þar af 6 í sókninni og sótti ófáar villurnar í kjölfarið. Callum Reese Lawson var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna og Larry Thomas átti fína spretti. Það munaði um að hans naut ekki við undir lokin eftir að hann fékk sína fimmtu villu. Hjá Tindastóli var Jaka Brodnik frábær og Shawn Glover átti fína spretti. Nick Tomsick kláraði síðan leikinn fyrir þá þrátt fyrir að hafa átt erfitt uppdráttar lengst af fram að því. Hvað gekk illa? Stólunum gekk illa að stoppa skot Þórsara í fyrri hálfleik en heimamenn voru með yfir 50% nýtingu úr þriggja stiga skotum fyrir hlé. Gestunum gekk sömuleiðis illa með fráköstin á köflum og í framlengingunni hirtu Þórsarar hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og fengu marga möguleika á að skora í hverri sókn. Einstaklingsmistök Þórsara voru þeim dýrkeypt í kvöld en heimamenn geta verið sáttir með margt í sínum leik þó svo að erfitt sé að sjá það eftir svona tap. Hvað gerist næst? Tindastóll fær Hauka í heimsókn á Sauðárkrók. Þeir eiga enn eftir að vinna leik á heimavelli í vetur og það er langt síðan Stólarnir hafa tapað þremur leikjum í röð í Síkinu líkt og raunin er nú. Þórsarar fara í heimsókn á Hlíðarenda og mæta Völsurum sem töpuðu gegn hinu Þórsliðinu í deildinni í kvöld. Þór frá Þorlákshöfn hefur gengið vel gegn liðum sem spáð er toppbaráttu í vetur og spurning hvort það haldi áfram gegn Val. Lárus: Tindastóll hleypti þessu í leðjuslag Lárus Jónsson þjálfari Þórs var vitaskuld svekktur eftir tapið í kvöld gegn Tindastóli. „Þetta gat dottið hvoru megin sem var. Leikurinn var sveiflukenndur, Tindastóll náði yfirhöndinni í þriðja leikhluta og þá vorum við að gleyma okkur í vörninni. Undir lokin gerum við mistök því við vorum eiginlega komnir með leikinn,“ bætti Lárus við en Þórsarar voru með fjögurra stiga forskot þegar 38 sekúndur voru eftir af framlengingunni. „Við áttum síðan lokaskot sem hefði getað farið ofan í. Þannig að það var ekkert mikið sem skildi liðin að, mér fannst við ekkert spila illa. Við vorum að vinna frákastabaráttuna, hitta ágætlega úr þriggja en mér fannst Tindastóll kannski komast aðeins of auðveldlega á hringinn okkar.“ Callum Lawson var frábær hjá Þór í kvöld en Þórsarar misstu hann meiddan af velli á tímabili í þriðja og fjórða leikhluta. Auk þess fékk Larry Thomas sína fimmtu villu í lokaleikhlutanum. „Við kannski spiluðum ekki vel á þeim tímapunkti sem Callum var útaf og svo missum við Larry og það munaði mikið um að hafa hann ekki í lokin. Hann spilaði ekki síðustu fimm mínúturnar og ekki í framlengingunni.“ Eins og Lárus kom inná virtist leikurinn vera að falla til Þórsara, þeir hirtu mikið af sóknarfráköstum í framlengingunni og stemmningin var þeirra megin. „Ég er mjög ánægður með baráttuna. Þetta var hálfgerður leðjuslagur. Tindastóll hleypti þessu í leðjuslag og mér fannst þeir fá að komast upp með það án þess að það væri mikið flautað. Mér fannst við bregðast vel við því og vera með yfirhöndina í því í framlengingunni. Svo var smá æðibunugangur í okkur í lokin sem tryggði þeim sigur,“ sagði Lárus en vildi lítið tjá sig um dómgæsluna í kvöld. „Ég vill ekkert vera að segja um það. Mér fannst samt svolítið vafasamt atriði í lokin þegar Axel hamraði Callum en það er víst ekki hægt að skoða það nema það sé dæmd villa,“ sagði Lárus að lokum. Baldur Þór: Ég treysti Nick til að klára þessa leiki „Ég er hrikalega ánægður með að við höfum tekið þennan sigur. Þór skaut 55% úr þriggja stiga í fyrri hálfleik, er að spila með mikið sjálfstraust og eru góðir. Þetta var mjög sterkur sigur,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls eftir sigur hans manna í framlengdum leik gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld. Þórsarar höfðu yfirhöndina framan af leik og alveg fram í þriðja leikhluta. Þeir voru að hitta vel en frábær þriðji leikhluti Tindastóls kom þeim í bílstjórasætið. „Í sjálfu sér var mikið af þeirra skotum sem þeir voru að setja í fyrri hálfleik í andlitið á mönnum. Það er oft talað um að það séu mikil smáatriði sem skeri úr um hvort þú náir að stoppa skot eða ekki. Það var meira um það í seinni hálfleik að skotin voru erfið fyrir þá.“ Tindastóll var með leikinn í hendi sér á lokamínútum en skoruðu ekki stig síðustu þrjár og hálfa mínútu venjulegs leiktíma. „Í sjálfu sér erum við að fá skot. Jaka, Shawn og Nick eru að skiptast á að skjóta og í sjálfu sér voru þeir bara ekki að klára það. Þeir allir prófuðu og stundum er það bara þannig.“ Nick Tomsick var í vandræðum fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld og var almennt ekki að hitta vel. Hann steig þó upp í síðari hálfleik og skoraði körfuna sem tryggði Tindastól sigurinn. „Hann er mjög sterkur karakter og hefur trú á sjálfum sér. Ég hef trú á honum og treysti honum til að klára svona leiki. Menn taka dýfur í þessu, þetta er langhlaup og það þarf að komast í gegnum dýfurnar og halda áfram.“ Antanas Udras hefur verið í stóru hlutverki hjá Stólunum í vetur en sat allan tímann á bekknum í kvöld. Baldur Þór sagði hann eiga við meiðsli að stríða. „Hann er meiddur í hendi. Hann treysti sér ekki til að spila,“ sagði Baldur Þór að lokum. Tomsick: Fannst við spila vel sem lið í kvöld Nick Tomsick var hetja Tindastóls í kvöld en þriggja stiga karfa hans undir lok framlengingar tryggði liðinu eins stigs sigur á Þór frá Þorlákshöfn. „Þetta var risastór sigur eftir nokkur töp. Þetta er afar mikilvægt fyrir okkar lið til að halda áfram,“ sagði Nick í samtali við Vísi eftir leik. Tomsick var ekki að hitta vel í leiknum í kvöld og var alls 2/13 í þriggja stiga skotum í leiknum. „Ég var í vandræðum en aðrir stigu upp og komu okkur í þá stöðu að vera með í leiknum. Ég gæti ekki verið ánægðari fyrir Jaka (Brodnik) og með það hvernig hann spilaði í kvöld. Shawn (Glover) spilaði vel og Axel setti þriggja stiga körfur sem voru risastórar.“ „Mér fannst við spila vel saman sem lið í kvöld og betur en undanfarið. Við notum þennan sigur til að vaxa og verða betri. Þetta er langt tímabil og hefur verið eitt það skrýtnasta ef maður horfir á sum úrslitin í deildinni. Við verðum betri, höldum áfram að berjast.“ Næst halda Stólarnir heim á Krókinn þar sem þeir hafa tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa. „Við munum vinna þar á einhverjum tímapunkti. Það verður á fimmtudag og nú ætlum við að vinna tvo leiki í röð og koma okkur á gott ról.“ Dominos-deild karla Þór Þorlákshöfn Tindastóll
Tindastóll vann afar mikilvægan sigur á Þór frá Þórlákshöfn á heimavelli þeirra síðarnefndu í kvöld. Leikurinn var framlengdur og það var Nick Tomsick sem tryggði Stólunum sigurinn með þriggja stiga körfu þegar 15 sekúndur voru eftir. Þórsarar byrjuðu leikinn betur í kvöld og leiddu með ellefu stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þeir voru að hitta afar vel á meðan skotin hjá Stólunum voru ekki að detta niður. Tindastóll hefur verið í basli undanfarið og það var líkt og sjálfstraustið í skotunum væri ekki alveg í botni. Leikurinn þróaðist á svipaðan hátt í öðrum leikhluta, Stólarnir náðu að minnka muninn inn á milli en Þórsarar juku hann ávallt á ný. Munurinn var þó sex stig í hálfleik, staðan þá 57-51. Í þriðja leikhluta tók Tindastóll hins vegar yfirhöndina. Þórsarar voru ekki að hitta jafn vel á meðan lykilmenn Tindastóls fóru að stíga upp. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 79-72 fyrir Tindastól og stemmningin þeirra megin. Fjórði leikhluti var síðan æsispennandi. Stólarnir leiddu og virtust ætla að sigla sigrinum heim. Sóknin hjá þeim hrökk hins vegar í baklás undir lokin og þeir skoruðu ekki síðustu þrjár og hálfa mínútu leiksins. Það nýttu Þórsarar sér og með Callum Lawson og Adomis Drungilas í broddi fylkingar náðu þeir að jafna. Tindastóll fékk síðustu sóknina, Nick Tomsick átti að klára með skoti sem og hann gerði en það geigaði og því varð að framlengja. Í framlengingunni voru Þórsarar með yfirhöndina. Þeir hirtu hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og hinu megin á vellinum voru Stólarnir að treysta of mikið á Tomsick sem lenti oft í vandræðum. Stólarnir minnkuðu muninn í tvö stig þegar 23 sekúndur voru eftir og Jaka Brodnik náði síðan að komast inn í sendingu Halldórs Garðars Hermannssonar þegar gestirnir pressuðu á Þórsara. Hann kom boltanum á Tomsick sem setti niður þriggja stiga skot með 15 sekúndur á klukkunni. Þórsarar fengu erfitt skot til að vinna leikinn í lokin en það geigaði og leikmenn Tindastóls fögnuðu gríðarlega, lokatölur 104-103 gestunum í vil. Af hverju vann Tindastóll? Þeir sýndu gríðarlega baráttu lengst af í leiknum og um leið og þeim tókst að loka betur á skot Þórsara fyrir utan þriggja stiga línuna náðu þeir betri tökum á leiknum. Sóknarleikurinn fór sömuleiðis að ganga betur og skotin að detta. Það voru síðan mistök Þórsara undir lok framlengingar sem kostuðu þá sigurinn. Þeir gáfu frá sér boltann klaufalega og Nick Tomsick er fæddur til að setja niður skot eins og það sem hann setti undir lokin. Þessir stóðu upp úr: Hjá Þór var Adomis Drungilas magnaður og skilaði 49 framlagspunktum. Hann skoraði 28 stig og tók 17 fráköst, þar af 6 í sókninni og sótti ófáar villurnar í kjölfarið. Callum Reese Lawson var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna og Larry Thomas átti fína spretti. Það munaði um að hans naut ekki við undir lokin eftir að hann fékk sína fimmtu villu. Hjá Tindastóli var Jaka Brodnik frábær og Shawn Glover átti fína spretti. Nick Tomsick kláraði síðan leikinn fyrir þá þrátt fyrir að hafa átt erfitt uppdráttar lengst af fram að því. Hvað gekk illa? Stólunum gekk illa að stoppa skot Þórsara í fyrri hálfleik en heimamenn voru með yfir 50% nýtingu úr þriggja stiga skotum fyrir hlé. Gestunum gekk sömuleiðis illa með fráköstin á köflum og í framlengingunni hirtu Þórsarar hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og fengu marga möguleika á að skora í hverri sókn. Einstaklingsmistök Þórsara voru þeim dýrkeypt í kvöld en heimamenn geta verið sáttir með margt í sínum leik þó svo að erfitt sé að sjá það eftir svona tap. Hvað gerist næst? Tindastóll fær Hauka í heimsókn á Sauðárkrók. Þeir eiga enn eftir að vinna leik á heimavelli í vetur og það er langt síðan Stólarnir hafa tapað þremur leikjum í röð í Síkinu líkt og raunin er nú. Þórsarar fara í heimsókn á Hlíðarenda og mæta Völsurum sem töpuðu gegn hinu Þórsliðinu í deildinni í kvöld. Þór frá Þorlákshöfn hefur gengið vel gegn liðum sem spáð er toppbaráttu í vetur og spurning hvort það haldi áfram gegn Val. Lárus: Tindastóll hleypti þessu í leðjuslag Lárus Jónsson þjálfari Þórs var vitaskuld svekktur eftir tapið í kvöld gegn Tindastóli. „Þetta gat dottið hvoru megin sem var. Leikurinn var sveiflukenndur, Tindastóll náði yfirhöndinni í þriðja leikhluta og þá vorum við að gleyma okkur í vörninni. Undir lokin gerum við mistök því við vorum eiginlega komnir með leikinn,“ bætti Lárus við en Þórsarar voru með fjögurra stiga forskot þegar 38 sekúndur voru eftir af framlengingunni. „Við áttum síðan lokaskot sem hefði getað farið ofan í. Þannig að það var ekkert mikið sem skildi liðin að, mér fannst við ekkert spila illa. Við vorum að vinna frákastabaráttuna, hitta ágætlega úr þriggja en mér fannst Tindastóll kannski komast aðeins of auðveldlega á hringinn okkar.“ Callum Lawson var frábær hjá Þór í kvöld en Þórsarar misstu hann meiddan af velli á tímabili í þriðja og fjórða leikhluta. Auk þess fékk Larry Thomas sína fimmtu villu í lokaleikhlutanum. „Við kannski spiluðum ekki vel á þeim tímapunkti sem Callum var útaf og svo missum við Larry og það munaði mikið um að hafa hann ekki í lokin. Hann spilaði ekki síðustu fimm mínúturnar og ekki í framlengingunni.“ Eins og Lárus kom inná virtist leikurinn vera að falla til Þórsara, þeir hirtu mikið af sóknarfráköstum í framlengingunni og stemmningin var þeirra megin. „Ég er mjög ánægður með baráttuna. Þetta var hálfgerður leðjuslagur. Tindastóll hleypti þessu í leðjuslag og mér fannst þeir fá að komast upp með það án þess að það væri mikið flautað. Mér fannst við bregðast vel við því og vera með yfirhöndina í því í framlengingunni. Svo var smá æðibunugangur í okkur í lokin sem tryggði þeim sigur,“ sagði Lárus en vildi lítið tjá sig um dómgæsluna í kvöld. „Ég vill ekkert vera að segja um það. Mér fannst samt svolítið vafasamt atriði í lokin þegar Axel hamraði Callum en það er víst ekki hægt að skoða það nema það sé dæmd villa,“ sagði Lárus að lokum. Baldur Þór: Ég treysti Nick til að klára þessa leiki „Ég er hrikalega ánægður með að við höfum tekið þennan sigur. Þór skaut 55% úr þriggja stiga í fyrri hálfleik, er að spila með mikið sjálfstraust og eru góðir. Þetta var mjög sterkur sigur,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls eftir sigur hans manna í framlengdum leik gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld. Þórsarar höfðu yfirhöndina framan af leik og alveg fram í þriðja leikhluta. Þeir voru að hitta vel en frábær þriðji leikhluti Tindastóls kom þeim í bílstjórasætið. „Í sjálfu sér var mikið af þeirra skotum sem þeir voru að setja í fyrri hálfleik í andlitið á mönnum. Það er oft talað um að það séu mikil smáatriði sem skeri úr um hvort þú náir að stoppa skot eða ekki. Það var meira um það í seinni hálfleik að skotin voru erfið fyrir þá.“ Tindastóll var með leikinn í hendi sér á lokamínútum en skoruðu ekki stig síðustu þrjár og hálfa mínútu venjulegs leiktíma. „Í sjálfu sér erum við að fá skot. Jaka, Shawn og Nick eru að skiptast á að skjóta og í sjálfu sér voru þeir bara ekki að klára það. Þeir allir prófuðu og stundum er það bara þannig.“ Nick Tomsick var í vandræðum fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld og var almennt ekki að hitta vel. Hann steig þó upp í síðari hálfleik og skoraði körfuna sem tryggði Tindastól sigurinn. „Hann er mjög sterkur karakter og hefur trú á sjálfum sér. Ég hef trú á honum og treysti honum til að klára svona leiki. Menn taka dýfur í þessu, þetta er langhlaup og það þarf að komast í gegnum dýfurnar og halda áfram.“ Antanas Udras hefur verið í stóru hlutverki hjá Stólunum í vetur en sat allan tímann á bekknum í kvöld. Baldur Þór sagði hann eiga við meiðsli að stríða. „Hann er meiddur í hendi. Hann treysti sér ekki til að spila,“ sagði Baldur Þór að lokum. Tomsick: Fannst við spila vel sem lið í kvöld Nick Tomsick var hetja Tindastóls í kvöld en þriggja stiga karfa hans undir lok framlengingar tryggði liðinu eins stigs sigur á Þór frá Þorlákshöfn. „Þetta var risastór sigur eftir nokkur töp. Þetta er afar mikilvægt fyrir okkar lið til að halda áfram,“ sagði Nick í samtali við Vísi eftir leik. Tomsick var ekki að hitta vel í leiknum í kvöld og var alls 2/13 í þriggja stiga skotum í leiknum. „Ég var í vandræðum en aðrir stigu upp og komu okkur í þá stöðu að vera með í leiknum. Ég gæti ekki verið ánægðari fyrir Jaka (Brodnik) og með það hvernig hann spilaði í kvöld. Shawn (Glover) spilaði vel og Axel setti þriggja stiga körfur sem voru risastórar.“ „Mér fannst við spila vel saman sem lið í kvöld og betur en undanfarið. Við notum þennan sigur til að vaxa og verða betri. Þetta er langt tímabil og hefur verið eitt það skrýtnasta ef maður horfir á sum úrslitin í deildinni. Við verðum betri, höldum áfram að berjast.“ Næst halda Stólarnir heim á Krókinn þar sem þeir hafa tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa. „Við munum vinna þar á einhverjum tímapunkti. Það verður á fimmtudag og nú ætlum við að vinna tvo leiki í röð og koma okkur á gott ról.“
Pétur leitar að nýjum Bandaríkjamanni: „Fjölhæfari leikmann, einhvern sem getur leyst margar stöður“
Uppgjörið: ÍR - Keflavík 79-91 | Kanalausir Keflvíkingar sáu til þess að ÍR fagnaði ekki fyrsta sigrinum