Erlent

Höfða hópmálsókn vegna skyrs: Segja bandaríska neytendur beitta blekkingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Icelandic Provisions

Bandaríska lögmannsfyrirtækið Sheehan & Associates hefur höfðað hópmál fyrir hönd umbjóðenda sinna gegn Icelandic Provisions vegna umbúða og markaðssetningar hinnar „hefðbundnu íslensku mjólkurvöru“ skyrs.

Icelandic Provisions, sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og fjárfesta, er sakað um að blekkja neytendur með markaðsetningu vörunnar, þar sem umbúðirnar gefi til kynna að skyrið sé framleitt á Íslandi.

Í stefnunni er meðal annars vísað til þess að á skyrinu standi „Traditional Icelandic Skyr“. Þá séu umbúðirnar myndskreyttar með myndum af „íslenskri sveit“. Enn fremur sé fjallað um skyrneyslu Íslendinga í þúsund ár og að umrætt skyr sé það eina sem er fáanlegt í Bandaríkjunum sem innihaldi íslenska mjólkurgerla.

Lögmannsstofan segir allt þetta gefa neytandanum til kynna að varan sé framleidd á Íslandi en hún sé raunverulega framleidd í New York.

Stendur á umbúðunum að skyrið sé framleitt í New York

Í stefnunni segir að neytendur séu nú reiðubúnir til að greiða meira fyrir „upprunalega“ vöru og sá eiginleiki hafi raunar yfirtekið „gæði“. Þannig sé skyrið í sama flokki og viskí frá Skotlandi, hlynsýróp frá Vermont, tómatar frá Ítalíu og súkkulaði frá Sviss.

Neytendur hafi væntingar um að varan sé framleidd þar sem hún kom fyrst fram og var þróuð og jafnframt vilja til að styðja við staðbundna framleiðslu. Neytendur séu hins vegar blekktir með notkun orðsins „fáanlegt“ í stað „framleitt“ í áðurnefndu samhengi.

Þá er bent á að á umbúðunum standi að skyrinu sé dreift af Icelandic Provisions í New York en það sé þróað í samstarfi við MS á Íslandi.

Þess ber að geta að það kemur sannarlega fram þar fyrir neðan að skyrið sé framleitt „með stolti“ í Batavia í New York úr innlendum og innfluttum hráefnum.

Málrök lögmannsstofunnar lúta þó ekki eingöngu að umbúðunum heldur er einnig vísað til þess að á heimasíðu Icelandic Provisions standi „Halló from Iceland!“ Þá hafi auglýsing fyrir vöruna verið tekin upp í Vík, þar sem íslenskir leikarar útskýra skyr fyrir bandarískum neytendum.

The National Law Review er meðal þeirra miðla sem hafa greint frá málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×