Á vef DV er greint frá því að landsliðskonurnar sitji fastar á flugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi. Þær áttu að fljúga þaðan til Danmerkur í dag og svo áfram til Íslands.
Samkvæmt sóttvarnalögum í Danmörku verður fólk sem þangað kemur hins vegar að hafa farið í smitpróf vegna kórónuveirunnar á síðustu 24 klukkustundum fyrir komuna. „Við vorum með upplýsingar um annað,“ segir Kristinn Geir Pálsson, afreksstjóri Körfuknattleikssambands Íslands, við DV. Íslenski hópurinn var með innan við 72 klukkustunda gömul smitpróf. Það dugði hins vegar ekki til og var hópnum meinað að stíga um borð í flugvél sína í Frankfurt.
Til stendur að íslenski hópurinn fari í smitpróf á flugvellinum í Frankfurt og fljúgi svo heim á morgun.
Það verður að koma í ljós hvort þessi töf á heimferð hafi áhrif á keppni í Dominos-deildinni. Landsliðskonurnar þurfa eins og aðrir að fara í fimm daga sóttkví við komuna til Íslands en næsta umferð á að fara fram á miðvikudaginn í næstu viku og þurfa leikmenn væntanlega að ná ákveðnum fjölda æfinga með sínum félagsliðum fyrir þá leiki.
Ísland lék tvo leiki í Ljubljana í Slóveníu en tapaði þeim báðum, gegn sterkum liðum heimakvenna og Grikkja. Ísland endaði neðst í sínum riðli en Slóvenía og Grikkland komust bæði í lokakeppni EM.