Sagt er frá tillögunni á vefnum kirkjusandur.is. Íslandsbankahúsið var rýmt í byrjun árs 2017 eftir upp komst um rakaskemmdir og síðar kom í ljós að það væri það illa farið að þörf væri á að rífa húsið.
Slíkt hafi kallað á heildarendurskoðun á lóðinni, en uppbygging hefur verið í gangi á gömlu Strætólóðinni, suður af reit Íslandsbankahússins, síðustu ár. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúðabygginga og atvinnuhúsinu á svæðinu.

Í vinningstillögunni er gert ráð fyrir Íslandsbankahúsið, sem var upphaflega hraðfrystihús, verði endurbyggt sem íbúðarhús og beri „hið endurbyggða hús sterk einkenni gamla frystihússins hvort sem er í mælikvarða, samsetningu eða efniskennd,“ líkt og segir í tillögunni.
Húsið muni standa á norðvesturjaðri lóðarinnar og þannig halda stöðu sinni sem „órjúfanlegur hluti af þeirri borgarmynd Reykjavíkur sem snýr til sjávar“. Er gert ráð fyrir að það verði sex hæðir, með þjónustu á jarðhæð en íbúðum á efri hæðum. Alls verði þar að finna 75 íbúðir og njóti sextíu þeirra útsýnis yfir sundin. „Á þaki hússins verður garður og leiksvæði fyrir íbúðirnar.og gróðurhús með gróðri, matjurtum o.fl.“

Á uppbygging hússins að vera einföld, burðarkerfið skýrt, með reglulegan hrynjanda og endurteknum opnunum á útveggjum sem hafi „sterka skírskotun í yfirbragð gamla hússins og iðnaðarbygginga þess tíma.“
Samkeppnin var haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, en fyrir henni stóð þróunarsjóðurinn Langbrók sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum og lóðarhafi á Kirkjusandi 2. Forsögn samkeppninnar var unnin í samstarfi við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.