Þórólfur skilaði minnisblaðinu til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, á sunnudag. Hann hefur ekki viljað gefa upp í hverju tillögur hans felast en hefur þó einkum sagt þrennt koma til greina.
Í fyrsta lagi mætti skerpa á ýmsum verkferlum og sannreyna upplýsingar sem ferðamenn koma með; hvort þeir gefi upp rétt símanúmer, heimilisfang og svo framvegis.
Í öðru lagi væri hægt að krefja fólk um neikvætt vottorð frá komufarþegum og í þriðja lagi væri síðan hægt að skylda fólk í farsóttarhús ef vafi leikur á því að fólk muni halda sóttkví.
Í minnisblaðinu er ekki að finna neinar tillögur varðandi frekari tilslakanir innanlands en á mánudaginn í síðustu viku tóku síðustu tilslakanir gildi.
Þórólfur sagði í gær að berja þyrfti í brestina á landamærunum áður en farið væri í frekari afléttingar innanlands.
Þá minnti hann jafnframt á að það tæki viku til tvær vikur fyrir áhrif eða afleiðingar tilslakana að koma fram.