Herstöðin er í norðurhluta Írak, í borginni Irbil á yfirráðasvæði Kúrda.
Talsmaður aðgerða Bandaríkjahers gegn Íslamska ríkinu sagði í morgun að fjórtán 107 mm eldflaugum hefði verið skotið á herstöðina og þrjár hefðu lent í henni. Þrjár eldflaugar eru sagðar hafa lent á íbúðasvæði nærri herstöðinni og flugvelli Irbil.
Update: CJTF-OIR confirms approx. 14 107 mm rockets launched with 3 impacting within EAB, Feb 15 at 2130 hours (Iraqi time).
— OIR Spokesman Col. Wayne Marotto (@OIRSpox) February 16, 2021
One civilian contractor was killed (Not US), and 9 injured ( 8 CIV contractors/ 1 US MIL) - 4 US/ 1 US MIL concussion protocol.
Spenna milli hersveita Bandaríkjanna og írakskra og kúrdískra bandamanna þeirra annars vegar og hersveita sem studdar eru af Íran hins vegar hefur aukist verulega á undanförnum árum.
Tiltölulega lítið þekkt sveit, sem kallast Awliya al-Dam, eða Verjendur blóðs, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Sú sveit tengist yfirvöldum í Íran og Hezbollah. Samkvæmt frétt Guardian ber sveitin einnig ábyrgð á tveimur sprengjuárásum á bílalestir Bandaríkjanna í Írak síðasta sumar.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir á kjörtímabili sínu að árásir á bandaríkjamenn myndu leiða til umfangsmikilla loftárása Bandaríkjanna á sveitir Írana í Írak. Þegar bandarískur verktaki dó í Kirkuk árið 2019 svaraði Trump fyrir þá árás með því að ráða hershöfðingjann Qassem Soleimani af dögum í loftárás í Írak og Abu Mahdi al-Muhandis, sem leiddi valdamikla sveit í Írak.
Sjá einnig: Bandaríkin réðu einn valdamesta mann Írans af dögum
Barham Saleh, forseti Íraks, hefur fordæmt árásina og sagði í yfirlýsingu að um hættulega stigmögnun væri að ræða.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að rannsókn muni fara fram og þeir sem hafi skotið eldflaugunum verði dregnir til ábyrgðar.