Þriðji maðurinn tók sér frest til að ákveða hvort hann muni einnig kæra en sakborningar hafa sólarhring til þess að kæra til Landsréttar. Þetta segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í samtali við Vísi.
Mennirnir þrír, tveir á fertugsaldri og einn á fimmtugsaldri, voru allir úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í gær eða til 23. febrúar.
Greint var frá því strax í gærkvöldi að einn mannanna, íslenskur karlmaður, hefði kært úrskurðinn til Landsréttar.
Steinbergur Finnbogason, lögmaður hans, sagði manninn hafa neitað allri aðild að málinu áður en hann var leiddur fyrir dómara.
Einn maður til viðbótar er í gæsluvarðhaldi en hann var handtekinn skömmu eftir að lögreglu barst tilkynning um málið um miðnætti á laugardagskvöld.
Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald á sunnudagskvöld til föstudagsins 19. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna.