KR-ingar slökuðu á undir lok leiks
Segja má að leikur KR og Fram hafi verið leikur kattarins að músinni en gestirnir voru hársbreidd frá því að vinna sér inn sæti í Pepsi Max deild karla á síðustu leiktíð, þeir áttu hins vegar ekki roð í KR í dag.
Staðan var 2-0 í hálfleik en í síðari hálfleik skoruðu KR-ingar að vild. Komust þeir í 7-0 áður en Haraldur Einar Ásgrímsson og Aron Þórður Albertsson minnkuðu muninn fyrir gestina undir lok leiks.
Hinn 37 ára gamli Óskar Örn Hauksson skoraði þrennu í liði KR. Hans önnur á undirbúningstímabilinu en hann skoraði einnig þrennu gegn Fjölni á Reykjavíkurmótinu. Þá lagði Óskar Örn einnig upp tvö mörk í liði KR.
Guðjón Baldvinsson skoraði tvö mörk í liði KR og átti skot í stöng. Hin þrjú mörkin skoruðu Pálmi Rafn Pálmason úr vítaspyrnu, Atli Sigurjónsson með skoti af löngu færi í autt markið eftir að uppspil Fram misheppnaðist og Oddur Ingi Bjarnason skoraði svo í uppbótartíma leiksins.
Skömmu áður hafði varamaðurinn Gunnar Gunnarsson fékk beint rautt spjald í liði Fram fyrir slæma tæklingu á Oddi Inga.
Lokatölur 8-2 og KR komnir með fjögur stig að loknum tveimur leikjum en liðið gerði 1-1 jafntefli við Víking í fyrstu umferð riðilsins. Fram er með þrjú stig eftir að hafa unnið 3-2 sigur á Þór Akureyri á sama tíma.

Víkingar með sýningu í Skessunni
Vuk Oskar Dimitrijevic kom heimamönnum í FH yfir snemma leiks eftir undirbúning Jónatans Inga Jónssonar en svo pökkuðu heimamenn einfaldlega í töskur og héldu heim. Karl Friðleifur Gunnarsson jafnaði metin fyrir Víking eftir aukaspyrnu og Erlingur Agnarsson kom gestunum yfir áður en fyrri hálfleikur var úti.
Síðari hálfleikur var einkaeign Víkings. Erlingur bætti við þriðja markinu úr vítaspyrnu og í kjölfarið bætti Nikolaj Hansen við fjórða markinu áður en Helgi Guðjónsson skoraði tvö mörk til viðbótar fyrir gestina, lokatölur því 1-6 í Skessunni í dag.
Víkingur einnig með fjögur stig – líkt og KR – á meðan FH er með þrjú stig eftir sigur á Kórdrengjum í fyrstu umferð riðilsins.