Tæplega fimmtíu skjálftar stærri en þrír að stærð riðu yfir á Reykjanesi undanfarinn sólarhring. Nýr sólarhringur og mánuður var rétt hafinn þegar hristingurinn fannst upp úr miðnætti.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar, sem legið hefur niðri stóran hluta kvöldsins en er nú aftur komin í lag, var skjálftinn 3,2 að stærð. Fyrstu tölur bentu til þess að hann hefði verið 2,4 að stærð sem vakti furðu margra lesenda Vísis á höfuðborgarsvæðinu sem fundu vel fyrir skjálftanum.
Skjálftinn virðist hafa verið á 4,2 kílómetra dýpi um 4,5 kílómetra norður af Krýsuvík. Í tilkynningu frá Veðurstofunni klukkan 00:28 segir að hann hafi verið staðsettur við Trölladyngju. Fram hefur komið að skjálftarnir séu farnir að þéttast á því svæði.
Annar snarpur skjálfti varð laust fyrir klukkan hálf eitt. Hann mældist 3,5 að stærð en hann var staðsettur við Keili og fannst á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarnes.
Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum af vef Veðurstofu Íslands.