Körfubolti

Jeremy Lin segist hafa verið kallaður kórónuvírus í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeremy Lin fór í eitt tímabil til Kína en er nú að reyna að komast aftur inn í NBA-deildina.
Jeremy Lin fór í eitt tímabil til Kína en er nú að reyna að komast aftur inn í NBA-deildina. Getty/VCG

Íslandsvinurinn Jeremy Lin henti fram sprengju í færslu á samfélagsmiðlum um helgina og þjálfari Golden State Warriors vill frekari rannsókn á málinu.

Körfuboltamaðurinn Jeremy Lin vill ekki segja hver það var sem kallaði hann kórónuvírus í leik á dögunum en hann vildi vekja athygli á þeim kynþáttafordómum sem hann verður enn fyrir inn á körfuboltavellinum.

Jeremy Lin spilar nú í G-deildinni sem er þróunardeild NBA og er hann leikmaður Santa Cruz Warriors, hliðarliðs Golden State Warriors.

Jeremy Lin vakti heimsathygli á sínum tíma þegar hann sló óvænt í gegn með liði New York Knicks og hefur síðan gert samninga við Houston Rockets, Charlotte Hornets og Brooklyn Nets. Hann samdi síðan við kínverska liðið Beijing Ducks 2019 og spilaði með því í eitt tímabil.

Lin vildi komast aftur í NBA-deildina en hann er orðinn 32 ára gamall. Lin ætlar nú að reyna að vinna sér sæti í NBA á ný með góðri frammistöðu í G-deildinni.

Færsla Jeremy Lin á samfélagsmiðlum var um kynþáttaformdóma gegn Bandaríkjamönnum af asískum ættum eins og hann er sjálfur. Lin skrifaði að fólk af asískum ættum í Bandaríkjunum væri orðið langþreytt á því að heyra það að það yrði ekki fyrir kynþáttafordómum.

„Þrátt fyrir að eiga að baki níu ár í NBA-deildinni þá ver það mig ekki fyrir að vera kallaður kórónuvírus í miðjum leik,“ skrifaði Jeremy Lin.

Jeremy Lin sagði ekki frá því hver það var sem kallaði hann þetta og hefur heldur ekki viljað segja frá því þegar bandarískir blaðamenn hafa spurt hann út í það.

Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, vildi að NBA-deildin myndi rannsaka betur ásakanir Jeremy Lin.

Jeremy Lin fór óvenjulega leið inn í NBA-deildinni en hann gafst aldrei upp þótt lítið hafi gengið framan af. Hann kom úr Harvard háskólanum og svaf meðal annars á sófa vinar síns til að halda draumnum gangandi.

Tækifærið kom síðan hjá New York Knicks á 2011-12 tímabilinu. Hann er með 11,6 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í 480 leikjum í NBA-deildinni frá 2010 til 2019.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×