Fótbolti

Fær ekki að dæma meira á tímabilinu vegna óviðeigandi framkomu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Coltescu fær ekki að dæma meira á þessu tímabili vegna uppákomu í leik Paris Saint-Germain og Istanbul Basaksehir í Meistaradeild Evrópu í desember.
Sebastian Coltescu fær ekki að dæma meira á þessu tímabili vegna uppákomu í leik Paris Saint-Germain og Istanbul Basaksehir í Meistaradeild Evrópu í desember. getty/Xavier Laine

Sebastian Coltescu, sem var fjórði dómari í frægum leik Paris Saint-Germain og Istanbul Basaksehir í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, fær ekki að dæma meira á þessu tímabili vegna óviðeigandi framkomu í umræddum leik.

Hætta þurfti leik eftir að Coltescu var sakaður um að hafa beitt Pierre Webo, aðstoðarþjálfara Istanbul, kynþáttaníði.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, komst seinna að þeirri niðurstöðu að Coltescu hefði ekki gerst sekur um rasisma. Hann hafi hins vegar ekki hagað sér á faglegan og viðeigandi hátt.

Annar aðstoðardómaranna í leiknum, Octavian Sovre, var einnig fundinn sekur um það sama og Coltescu en var ekki settur í frystinn eins og kollegi sinn. Þeir þurfa báðir að sitja fræðslunámskeið á vegum UEFA fyrir lok júní.

Leikmenn beggja liða gengu af velli í leik PSG og Istanbul 8. desember síðastliðinn eftir uppákomuna á hliðarlínunni.

Leikurinn var svo kláraður daginn eftir með nýjum dómurum. PSG vann leikinn með fimm mörkum gegn einu.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×