Enski boltinn

Klopp: Hann er einn af þeim bestu í heimi í sinni bestu stöðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabinho var valinn maður leiksins í 2-0 sigri Liverpool á RB Leipzig í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Fabinho var valinn maður leiksins í 2-0 sigri Liverpool á RB Leipzig í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. AP/Laszlo Balogh

Þetta hefur verið sérstakt tímabil fyrir leikmenn Liverpool og ekki síst fyrir leikmann eins og Brasilíumanninn Fabinho.

Fabinho hefur eins og fleiri lykilmenn Liverpool þurft að glíma við meiðsli en þegar hann hefur spilað þá hefur hann oftast þurft að spila út úr stöðu. Á þessu var breyting í Meistaradeildinni í vikunni.

Jürgen Klopp hefur þurft að spila Fabinho í stöðu miðvarðar og eins og flestir miðverðir liðsins á þessari leiktíð þá meiddist Brassinn þegar hann spilaði þá stöðu.

Í 2-0 sigrinum á RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar þá var Fabinho hins vegar kominn í sína bestu stöðu sem er á miðjunni. Hann var þar með Thiago Alcantara og náðu þeir mjög vel saman í sannfærandi og langþráðum sigri Liverpool liðsins.

Flestir sérfræðingar eru samála um það að endurkoma Fabinho inn á miðjuna hafi verið mikið gæfuspor fyrir Liverpool liðið í þessum leik.

Klopp var líka ánægður með hinn 27 ára gamla Fabinho eftir leikinn. Hann var spurður út leikstöðu Fabinho og þá sérstaklega í framhaldinu eftir þessa frammistöðu.

„Við verðum að sjá til hvaða lausnir við getum fundið en sexan er hann staða. Það var okkar von um að nota hann þar á þessu tímabili,“ sagði Jürgen Klopp og hann hefur trú á Brassanum.

„Hann er einn af þeim bestu í heimi í þessari stöðu, það er á hreinu. Ekki bara varnarlega heldur einnig að búa til. Hann er svo mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Klopp.

Það er flestum ljóst að meiðslavandræðin í vörninni hafa haft mikil áhrif á miðjuna þar sem bæði Fabinho og fyrirliðinn Jordan Henderson hafa spilað lítið í sínum bestu stöðu þar sem þeir hafa mikið þurft að vera í vörninni.

Næti leikur Liverpoool liðsins er á móti Wolves á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×