Staðan var 1-1 er Ragnar Bragi fékk reisupassann en Fylkir mátti ekki tapa leiknum með meira en einu marki ef það ætlaði sér áfram í 8-liða úrslit Lengjubikarsins. Fór það svo að Breiðablik vann 2-1 og Fylkir skreið áfram í 8-liða úrslitin þar sem Stjarnan bíður.
Þegar rúm klukkustund var liðin af leiknum lenti leikmönnum beggja liða saman og virtist sem fyrirliði Fylkis væri að reyna róa menn niður. Dró hann til að mynda Arnór Borg Guðjohnsen í burtu eftir að Arnór Borg virtist sparka í Viktor Örn Margeirsson. Bæði Arnór og Viktor Örn fengu gul spjöld frá Elíasi Inga Árnasyni dómara.
Ragnar Bragi fékk hins vegar rautt spjald eftir að dómari leiksins sá hann klípa í pung Olivers, leikmann Breiðabliks.
Þetta var hans fyrsta spjald það sem af er ári en á síðasta ári nældi Ragnar Bragi sér í fjögur gul spjöld og tvö rauð. Árið þar áður fékk hann sjö gul og eitt rautt.