Körfubolti

KR-ingar gáttaðir á því að Lina Pikciuté sleppi við bann fyrir olnbogaskotið: „Ásetningur af versta tagi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lina Pikciuté gefur Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot.
Lina Pikciuté gefur Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot. stöð 2 sport

KR-ingar eru afar ósáttir við að Fjölniskonan Lina Pikciuté hafi sloppið við bann fyrir að gefa Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot í leik liðanna í Domino's deild kvenna fyrr í þessum mánuði.

„Ég var að fá svar frá KKÍ þar sem dómaranefnd metur þetta sem U-villu í leik en ekki D-villu og kæra því ekki atvikið,“ sagði Böðvar E. Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, í samtali við Vísi í dag. 

Brot Pikciutés var með öðrum orðum metið sem óíþróttamannsleg villa en ekki brottrekstrarvilla. Það finnst KR-ingum illskiljanlegt.

„Kærufresturinn er liðinn. Félögin geta kært sjö sólarhringum eftir leik en það eru tvær vikur síðan leikurinn fór fram. Við í KR áttum von á að þetta yrði tekið fyrir og leikmaðurinn dæmdur í eins eða tveggja leikja bann. Þess vegna er ótrúlegt að dómaranefnd hafi metið þetta atvik eins og þeir gerðu því það kemur fram á myndbandi að þetta er ásetningur af versta tagi,“ sagði Böðvar.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Olnbogaskot Linu Pikciuté

Ekki er langt síðan Nikita Telesford, leikmaður Skallagríms, var dæmd í tveggja leikja bann fyrir að gefa Valskonunni Hildi Björgu Kjartansdóttur olnbogaskot.

„Ég veit ekki hvort dómaranefnd sé að fara í manngreinarálit. Það er nýbúið að dæma hana [Telesford] fyrir fólskuleg brot á Hildi Björgu en svo fáum við þessa blautu tusku í andlitið. Það er magnað að dómarinn, sem var beint fyrir framan þetta, hafi ekki séð þetta og að dómaranefndin, sem er skipuð reynslumiklum mönnum, vísi þessu frá er óboðlegt,“ sagði Böðvar.

„Það er eitthvað mikið að, ég held að hver einn og einasti sem hafi skoðað þetta atvik sjái að þetta var viljandi gert og þetta á að vera bann. Misræmið í þessum dómum er svo mikið að ég trúi ekki öðru en þetta verði tekið aftur fyrir og þeir geri það eina rétta í stöðunni og dæma þennan leikmann í bann.“

KR sækir Keflavík heim í Domino's deildinni í kvöld. KR-ingar eru með tvö stig á botni deildarinnar.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×