Skoðun

Á­skorun til stjórn­valda

Vilhjálmur Birgisson skrifar

Fjölmargt launafólk hefur nýtt sér úrræði stjórnvalda og ráðstafað hluta af séreignarsparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán sín. Það er mat mitt að hér sé um mjög skynsamlega ráðstöfun að ræða enda umrædd ráðstöfun skattfrjáls og það er einnig mitt mat að besti lífeyrir heimilanna er að eiga skuldlitla eða skuldlausa eign þegar fólk fer á eftirlaun.

Hins vegar liggur fyrir að þessi heimild heimilanna til að ráðstafa séreign sinni skattfrjálst inn á húsnæðislán sín rennur út í júní næstkomandi og ekki hefur heyrst frá stjórnvöldum hvort þau muni framlengja þetta frábæra úrræði fyrir heimilin.

Ég skora á stjórnvöld að halda þessu úrræði áfram því eins og áður sagði þá tel ég að besti lífeyrir launafólks sé að eiga skuldlítið eða skuldlaust húsnæði þegar það kemst á eftirlaun.

Það gefur fólki möguleika á að selja eign sína og fjárfesta annað hvort í minni og ódýrari eign eða fara í önnur búsetuúrræði sem bjóðast eldra fólki eins og t.d. í gegnum Búseta.

Já, húseign launafólks er okkar besti lífeyrir og í því jákvæða vaxtastigi sem við núna loksins búum við þar sem fólk hefur í stríðum straumum komið sér úr viðjum og hlekkjum verðtryggingar og endurfjármagnað sig með óverðtryggðum húsnæðislánum er frábært að geta notað skattfrjálsan séreignarlífeyrissparnað sinn til að lækka höfuðstól húsnæðislána.

Ég ítreka áskorun mína til stjórnvalda að heimila áframhald á þessu góða úrræði heimilum til hagsbóta!

Höfundur er formaður Verkalýðsfélag Akraness.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×