„Ég er eiginlega bara talskona þeirra sem þurfa á því að halda. Það er mjög mikilvægt að við höfum rödd í samfélaginu, þannig að ég sagði bara já,“ segir Steinunn, aðspurð hvers vegna hún tók verkefnið að sér.
„Mér finnst þetta skipta máli. Ég afhenti fyrsta hjólið í fyrsta skipti og finnst gott að geta látið gott af mér leiða,“ bætir hún við.
Hjólin verða gefin börnum og unglingum sem hafa ekki tök á að kaupa sér reiðhjól, og verður þeim úthlutað í gegnum félagsþjónustuna. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir að um ellefu hundruð hjól hafi verið gefin í söfnunina í fyrra.
„Við hvetjum landsmenn til að gefa okkur hjól, en helst langar okkur að kalla eftir sjálfboðaliðum til að gera við hjólin. Hingað koma hjól í alls konar ástandi og þá þurfum við fólk sem hjálpar okkur að gera við þau, gera þau fín og tilbúin fyrir börn til að hjóla inn í sumarið,“ segir Erna.