Rafa Benitez hefur verið atvinnulaus síðan hann sagði upp starfi sínu í kínversku ofurdeildinni í upphafi ársins.
Hann viðurkennir að hann sé að bíða eftir því að spennandi starf í ensku úrvalsdeildinni losni.
„Ég er að vonast eftir starfi á Englandi, augljóslega því ég kann vel við ensku úrvalsdeildina og fjölskyldan mín er hér,“ segir Benitez.
Endurkoma til Newcastle er þó ekki í kortunum þó stuðningsmenn félagsins láti sig dreyma um það en liðið hefur ekkert getað undir stjórn Steve Bruce að undanförnu.
„Ég vil keppa um titla eða vinna með verkefni sem hægt er að koma nær því að keppa um titla, “ segir Benitez.
„Ég vil þjálfa í Evrópu og helst Englandi. Ef það kemur upp gott starf er ég klár að byrja á morgun. Ég sé ekkert slíkt starf eins og er og því þarf ég að bíða. Kannski þarf ég að bíða í einn mánuð eða tvo.“