Fótbolti

Mestar líkur á enskum úrslitaleik í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool maðurinn Sadio Mane með Meistaradeildarbikarinn en Liverpool vann hann síðasta þegar ensk félög mættust í úrslitaleiknum vorið 2019.
Liverpool maðurinn Sadio Mane með Meistaradeildarbikarinn en Liverpool vann hann síðasta þegar ensk félög mættust í úrslitaleiknum vorið 2019. Getty/Matthias Hangst

Manchester City er sem fyrr sigurstranglegasta liðið í Meistaradeildinni í vor en það eru líka mestar líkur á að tvö lið úr ensku úrvalsdeildinni spili til úrslita í Tyrklandi.

Það eru aðeins átta lið eftir í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og nú er jafnframt ljóst hvaða leið bíður þessara átta liða ætli þau alla leið í úrslitaleikinn á Atatürk Ólympíuleikvanginum í Istanbul.

Tölfræðisíðan FiveThirtyEight hefur nú sett saman sigurlíkur allra liðanna átta eftir að það var búið að draga bæði í átta liða úrslitin sem og undanúrslitin.

Manchester City er með yfirstöðu í spákeppninni en lærisveinar Pep Guardiola eru eina liðið með meira en helmingslíkur á því að komast alla leið í úrslitaleikinn. Það eru 56 prósent líkur á því að City liði spili til úrslita og 37 prósent líkur á því að liðið vinni Meistaradeildina.

Það sem vekur kannski meiri athygli að það eru ekki mestar líkur á því að Manchester City mæti ríkjandi meisturum í Bayern München í úrslitaleiknum en það er ein góð skýring á því. City og Bayern munu nefnilega mætast í undanúrslitunum vinni þau viðureignir sínar í átta liða úrslitunum.

Fyrir vikið eru meiri líkur hjá Chelsea að komast í úrslitaleikinn (43 prósent) og vinna titilinn (18 prósent) heldur hjá Bayern að komast alla leið (28 prósent) og verja titilinn (16 prósent).

Jafnasta viðureign átta liða úrslitanna samkvæmt spánni er aftur á móti einvígi Liverpool og Real Madrid. Bæði eru með fimmtíu prósent líkur á að komast í undanúrslitin en Liverpool er einu prósenti líklegra til að komast í úrslitaleikinn.

Það lið sem vinnur einvígi Liverpool og Real Madrid mætir einmitt Chelsea (eða Porto) í undanúrslitunum.

Komist Manchester City loksins í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þá eru mestar líkur á því að liðið mæti annaðhvort Chelsea eða Liverpool í alenskum úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×