Til stendur að núgildandi bann við óþarfa ferðalögum erlendis verði endurskoðað í næsta mánuði og að því verði mögulega aflétt frá og með 17. maí. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir að ákvæði um sektarheimild verði fest í lög ef ekki reynist hægt að slaka á ferðatakmörkunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Sektin næmi 5.000 pundum, jafnvirði rúmlega 863 þúsund íslenskra króna.
Faraldurinn hefur sótt í sig veðrið aftur víða í Evrópu undanfarna daga. Því hafa vonir um að bresk stjórnvöld gætu slakað á ferðatakmörkunum á næstunni dvínað. Hancock sagði of snemmt að segja til um til hvaða aðgerða ríkisstjórnin gripi vegna orlofsferða landsmanna.
„Ástæðan fyrir því er að við sjáum þriðju bylgjuna rísa sums staðar í Evrópu og við sjáum líka ný afbrigði og það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þann árangur sem við höfum náð hér í Bretlandi,“ sagði ráðherrann í dag.