Körfubolti

NBA dagsins: Harden landaði sigri án Durant og Irving og líka án þessa að hitta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden er búinn að taka yfir hjá Brooklyn Nets í fjarveru hinna stórstjarna liðsins.
James Harden er búinn að taka yfir hjá Brooklyn Nets í fjarveru hinna stórstjarna liðsins. AP/Kathy Willens

James Harden hélt uppi leik Brooklyn Nets í fjarveru stórstjarnanna Kevin Durant og Kyrie Irving. Það er óhætt að segja að Nets-liðið sé að breytast í liðið hans Harden.

James Harden fær ekki mikla hjálp frá hinum stórstjörnunum í Brooklyn Nets þessa dagana en sýndi í nótt að hann getur dregið vagninn einn og líka fundið leið til að draga vagninn þótt að miðið væri skakkt.

Harden var með 25 stig og 17 stoðsendingar í 116-112 sigri Brooklyn Nets á Portland Trail Blazers. Skotnýtingin var ekki glæsileg (29%, 7 af 24) en honum tókst að leiða liðið til sigurs þrátt fyrir það.

Harden spilaði uppi félaga sína á lokakafla leiksins en hann átti þá stoðsendinguna á bak við fimm síðustu körfur liðsins. Harden klikkaði reyndar á öllum sex skotum sínum í fjórða leikhlutanum en tókst að samt að búa til körfur fyrir liðsfélagana sem skipti öllu máli.

Það vantaði náttúrulega tvo frábæra sóknarmenn í liðið. Kevin Durant er með 29,0 stig í leik og Kyrie Irving er með 28,1 stig í leik.

Kevin Durant er búinn að vera frá síðan um miðjan febrúar og hefur aðeins spilað einn af síðustu tuttugu leikjum Nets-liðsins frá og með 6. febrúar. Kyrie Irving er komið í annað þriggja leikja leyfi en hann missti sjö leikjum í röð í janúar.

Harden missir aftur á móti ekki af leikjum en enginn hefur spilað fleiri leiki í NBA-deildinni síðan að Harden kom inn í deildina 2009. Þetta var leikur númer 871.

Það er ekkert nýtt að Brooklyn Nets sé að vinna jafna leiki síðan að James Harden mætti til Brooklyn en liðið hefur unnið 16 af 19 jöfnum leikjum með hann innanborðs.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum sigri Brooklyn Nets sem og frá sigurleikjum Denver Nuggets á Orlando Magic og sigurleik New Orleans Pelicans á NBA meisturum Los Angeles Lakers. Þar má einnig finna flottustu tilþrif næturinnar eins og vanalega.

Klippa: NBA dagsins (frá 22. mars 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×