Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu en að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítala, voru tæplega 400 starfsmenn bólusettir með efninu þann 11. mars síðastliðinn.
Bólusetning þeirra var skyndilega stöðvuð þegar sóttvarnalæknir tilkynnti síðar um morguninn að hlé yrði gert á notkun AstraZeneca bóluefnisins vegna fregna af hugsanlegum alvarlegum aukaverkefnum. Þrír mánuðir eru látnir líða á milli fyrri og seinni skammts AstraZeneca.
Bóluefnið öryggt og áhrifaríkt
Nýverið lauk athugun á öryggi bóluefnisins en rannsóknir á Norðurlöndunum og í Bretlandi leiddu í ljós að blóðsega- og blæðingavandamál á borð við blóðtappa kæmu nær eingöngu upp hjá einstaklingum yngri en 60 ára og um væri að ræða fátíð tilfelli.
Í kjölfarið hófst bólusetning með efni AstraZeneca hérlendis á ný á föstudag og nær fyrst um sinn einungis til 70 ára og eldri.
Áður hafði Lyfjastofnun Evrópu gefið út að engar vísbendingar hafi fundist um galla eða gæðaskort í rannsókn hennar á bóluefninu þar sem einstaka tilfelli blóðtappa voru skoðuð. Að sögn stofnunarinnar eru heilt yfir ekki meiri líkur á blóðtappa eftir bólusetningu og jafnvel vísbendingar um minni líkur á blóðtappa hjá bólusettum.
Með nálina í öxlinni
Til stóð að bólusetja um 500 starfsmenn Landspítala þann 11. mars og þurfti spítalinn að farga rúmlega hundrað skömmtum af bóluefni AstraZeneca þegar bólusetning var stöðvuð.
„Það var hafin bólusetning þarna um morguninn. Þá var búið að blanda skammta fyrir bólusetningartímabilið þann daginn,“ sagði Anna Sigrún í samtali við Vísi þann 16. mars.
Bóluefni AstraZeneca geymist í um sex klukkutíma eftir að það hefur verið blandað.
„Það var nánast fólk með nálina í öxlinni þegar tilkynningin kom. Við vorum byrjuð að bólusetja þennan dag. Við blöndum samdægurs, því þetta lifir í svo stuttan tíma. Það var sem betur fer ekki meira en þetta.“
Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér skammta af AstraZeneca bóluefninu sem dugar fyrir um 115 þúsund einstaklinga.
Nú hafa tæplega 14 þúsund fengið fyrri skammtinn en notkun þess hófst aftur síðasta föstudag þegar ríflega 4.600 einstaklingar fæddir árin 1946 til 1949 voru bólusettir. Áfram verður bólusett í eldri aldurshópum með bóluefni AstraZeneca í þessari viku.