Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun en í uppfærðum tölum á covid.is í gær kom fram að tvö börn á aldrinum eins til fimm ára væru smituð af veirunni.
Sú tala er óbreytt eftir að tölur dagsins bárust en alls greindust tíu innanlands í gær. Þar af var einn utan sóttkvíar, allir hinir níu voru í sóttkví.
„Þetta eru ekki smit á leikskólum heldur eru þetta tvö börn á leikskólaaldri sem smituðust heima af fjölskyldum sínum, en ekki á leikskólanum,“ sagði Þórólfur.
Hann sagði smit barnanna tengjast smitum sem komu upp í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku sem teygt hefur anga sína víða. Fjöldi barna í Laugarnesskóla greindist með kórónuveiruna og hafa til dæmis nemendur í Víðistaðaskóla og Öldutúnsskóla smitast út frá þeirri hópsýkingu.
Þórólfur benti á að margir hefðu þurft að fara í sóttkví síðustu daga.
„Og margir smitast. Við svona nána útsetningu eins og er á heimilum þá getur það náttúrulega gerst. Börn á leikskólaaldri geta smitast en það er miklu sjaldgæfara og ég held það sé vert að hafa í huga að þetta eru ekki smit á leikskólum heldur eru þetta smit hjá tveimur leikskólabörnum sem urðu heima hjá fjölskyldunni,“ sagði Þórólfur.
Samkvæmt covid.is eru nú 32 börn í einangrun með Covid-19, flest á aldrinum sex til tólf ára eða alls 21.