Fótbolti

Valin í kanadíska lands­liðið eftir að hafa ekki fengið að spila með Ís­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cloé Lacasse í leik gegn Breiðabliki sumarið 2018.
Cloé Lacasse í leik gegn Breiðabliki sumarið 2018. Vísir

Cloé Lacasse, fyrrum leikmaður ÍBV, hefur verið valin í kanadíska landsliðið fyrir leiki gegn Englandi og Wales. Eru leikirnir undirbúningur fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í Tókýó, Japan, í sumar.

Cloé Lacasse er í dag leikmaður Benfica í Portúgal og lék til að mynda með liðinu gegn Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr á þessari leiktíð. Þar áður lék hin 27 ára gamla Lacasse með ÍBV í Pepsi Max deild kvenna.

Lék hún alls 91 leik í deild og bikar hér á landi og skoraði 63 mörk.

Hún lék með liðinu frá 2015 til 2019 og fékk á endanum íslenskan ríkisborgararétt. Hún stefndi á að spila með íslenska landsliðinu en fékk aldrei leikheimild þar sem hún náði ekki að uppfylla kröfur Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, varðandi dvalartíma á Íslandi.

Samkvæmt reglum sambandsins þarf einstaklingur að búa í landi samfleytt í fimm ár til að fá leikheimild með öðru landi en því sem hann er fæddur í. Cloé fór til Benfica áður en hún náði árunum fimm.

Með frammistöðu sinni hjá Benfica hefur hún vakið athygli landsliðsþjálfara Kanada sem hefur ní valið hana í landsliðið og fær Cloé því tækifæri til að sýna sig og sanna fyrir Ólympíuleikana í sumar.

Kanada er sem stendur í 8. sæti heimslista FIFA á meðan Ísland er í 16. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×