Dean Smith, þjálfari Aston Villa, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Jack Grealish yrði frá næstu vikurnar þar sem hann hefði ekki jafnað sig af meiðslum. Ekki er alveg staðfest hver meiðslin eru en Grealish er talinn meiddur á kálfa, sköflung eða ökkla.
#AVFC captain Jack Grealish will be out for another "few weeks" after suffering a setback in his recovery from injury, says head coach Dean Smith.
— Sky Sports News (@SkySportsNews) April 9, 2021
„Það kom bakslag í þetta og hann verður frá næstu vikurnar. Hann þoldi ekki álagið. Við vitum að þetta eru ekki langtíma meiðsli en við ýttum honum mögulega of fljótt af stað,“ sagði Smith á blaðamannafundi í dag en Villa mætir Liverpool á morgun.
Grealish hefur verið frábær með Aston Villa á leiktíðinni og lagt upp 12 mörk ásamt því að skora sex í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Talið var nær öruggt að hann yrði í enska landsliðshópnum sem færi á EM en nú er öldin önnur. Þó bæði Gary Neville og Jamie Carragher myndu taka hann með á mótið er óvíst hvað Gareth Southgate, landsliðseinvaldur Englands, gerir.
Upprisa Jesse Lingard þýðir að hann er kominn inn í myndina og þá gleymist hversu öflugur Jadon Sancho hefur verið með Borussia Dortmund á leiktíðinni. Svo er óvíst hvar Grealish passar inn í 3-4-3 leikkerfið sem England mun að öllum líkindum spila í sumar.
Eftir frábært tímabil er ljóst að Grealish hefði ekki getað meiðst á verri tíma. Hann þarf að sýna Southgate að hann sé klár í slaginn áður en hópurinn verður tilkynntur. Það verður í síðasta lagi 11. maí næstkomandi.