Chauvin er ákærður fyrir manndráp en hann hvíldi hné sitt á hálsi Floyd í meira en níu mínútur með þeim afleiðingum að hann lést í maí í fyrra. Dauði Floyd, sem var blökkumaður, varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju sem gekk yfir Bandaríkin og fleiri lönd í fyrra.
Verjendur Chauvin luku máli sínu í dag eftir að hafa kallað til vitni í tvo daga. Ákæruvaldið tók tvær vikur í að leggja fram mál sitt á hendur fyrrverandi lögreglumanninum. Vörn Chauvin fólst meðal annars í því að hann hafi borið sig að í samræmi við þjálfun og að Floyd hafi látið lífið vegna neyslu á ólöglegum efnum og undirliggjandi sjúkdóma.
Sérfræðingar sem saksóknarar kvöddu til vitnis sögðu aftur á móti að Floyd hefði látið lífið vegna súrefnisskorts þegar Chauvin þrengdi að hálsi hans.
AP-fréttastofan segir að Chauvin hafi tjáð dómaranum að hann hefði valið bera fyrir sig fimmta viðaukann við stjórnarskrá Bandaríkjanna og neita að bera vitni.
Lokamálflutningsræður í málinu eiga að fara fram á mánudag áður en kviðdómendur ráða ráðum sínum um örlög Chauvin.
Mikil spenna ríkir í Minnesota-ríki vegna máls Chauvin. Ekki bætti úr skák þegar lögreglukona skaut svartan ökumann til bana í ríkinu á sunnudag. Talið er að lögreglukonan hafi ætlað að skjóta hann með rafbyssu en hleypt af skammbyssu sinni fyrir mistök. Drápið varð kveikjan að enn frekari mótmælum gegn lögregluofbeldi.