Þá hafði lögregla afskipti af manni um níu leytið í gærkvöldi en sá var með „hendurnar fullar af verkfærum,“ líkt og það er orðað í tilkynningu lögreglu. Viðurkenndi maðurinn strax að hafa stolið verkfærunum en um var að ræða rafmagnsverkfæri í töskum. Maðurinn sýndi lögreglunni bifreið sem hann hafði stolið verkfærunum úr en var handtekinn og vistaður í fangageymslu um stund en var síðan látinn laus úr haldi að lokinni skýrslutöku. Eigandi verkfæranna ku hafa sótt eignir sínar á lögreglustöð.
Vitnað er einnig til mótmæla við rússneska sendiráðið í gærkvöldi þar sem um 28 mótmælendur voru saman komnir en allt fór vel fram að því er segir í dagbókinni.
Einn ökumaður var stöðvaður í Ártúnsbrekku eftir að hafa mælst á 127 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60. Sér til varnar sagðist ökumaðurinn vera að verða of seinn í matinn. Þá hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af þó nokkrum fjölda ökumanna vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur eða akstur án ökuréttinda.