„Stærsti leikur ársins og hann var búinn áður en hann byrjaði,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, og bætti við að lið Dallas hefði litið út eins og lið í úrslitakeppni en Golden State eins og lið í æfingaleik.
Doncic skoraði 39 stig og Dallas hafði yfirburði allan tímann, og náði mest 43 stiga mun. Stephen Curry hélt þó áfram að bæta met sitt yfir flesta þrista í einum mánuði. Hann setti niður fimm þrista, skoraði alls 27 stig, og hefur skorað 90 þrista í apríl.
Kerr dró ekkert úr mikilvægi leiksins en sigur hefði hjálpað Golden State í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. Liðið er í 10. sæti vesturdeildar með 31 sigur og 31 tap, tveimur töpum meira en San Antonio Spurs og Memphis Grizzlies.
Eins og staðan er núna þyrfti Golden State að vinna tvo andstæðinga í umspili til að komast í úrslitakeppnina.
Liðin í 7.-10. sæti fara í umspil um sæti í úrslitakeppninni en umspilið er þannig að liðin í 7.-8. sæti mætast, og liðin í 9.-10. sæti. Sigurliðið í leik 7.-8. sætis fer í úrslitakeppnina en tapliðið mætir sigurliðinu úr leik 9.-10. sætis.
Dallas sleppur við umspilið miðað við núverandi stöðu en liðið er í 6. sæti vesturdeildar, einum sigri ofar en Portland Trail Blazers sem unnu Indiana Pacers í nótt.
Liðin í NBA-deildinni eiga eftir 10-12 leiki hvert áður en umspilið hefst 18. maí. Úrslitakeppnin hefst svo 22. maí.
Úrslitin í nótt:
- Boston 115-119 Oklahoma
- Charlotte 104-114 Milwaukee
- Indiana 112-133 Portland
- Toronto 103-116 Brooklyn
- Houston 107-114 Minnesota
- Golden State 103-133 Dallas