Pepsi Max deild karla í fótbolta hefst á föstudaginn kemur en fram að því ætlum við á Vísi að skoða nokkra athyglisverða tölfræðilista frá því á síðasta tímabili.
Fylkismaðurnn Djair Parfitt-Williams var sá sem reyndi langoftast að taka menn á síðasta sumar eða 138 sinnum í átján leikjum eða 7,53 sinnum að meðaltali á hverjar níutíu mínútur.
Það heppnaðist síðan í sextíu prósent tilfella hjá Parfitt-Williams að leika á andstæðing sinn.
Parfitt-Williams reyndi oftast að taka mann á í 3-2 sigri á HK í júlí eða alls þrettán sinnum og níu sinnum tókst honum það. Hann tók menn á líka tólf sinnum í leikjum á móti Gróttu í ágúst og KA í september.
KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson varð í öðru sætinu en hann tók mann á einu sinni oftast en FH-ingurinn Jónatan Ingi Jónsson. Hér fyrir neðan má sjá topp tíu listann.
Dugnaður Djair Parfitt-Williams dugði þó ekki Fylkismönnum til að ná efsta sætinu því það voru Blikar sem reyndu oftast allra að leik á mótherja sína eða alls 664 sinnum í 18 leikjum. Fylkismenn eru þar í öðru sæti (607) og KR-ingar eru í þriðja sæti (567).
Menn sem reyndu oftast að leika á andstæðing í Pepsi Max deild karla 2020:
- 1. Djair Terraii Carl Parfitt-Williams, Fylki 138 sinnum
- 2. Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA 125 sinnum
- 3. Jónatan Ingi Jónsson, FH 124 sinnum
- 4. Brynjólfur Andersen Willumsson, Breiðabliki 119 sinnum
- 4. Aron Bjarnason, Val 119 sinnum
- 6. Birnir Snær Ingason, HK 118 sinnum
- 7. Gísli Eyjólfsson, Breiðabliki 113 sinnum
- 8. Atli Sigurjónsson, KR 108 sinnum
- 9. Ágúst Eðvald Hlynsson, Víkingi 100 sinnum
- 9. Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki 100 sinnum
Vísir hefur skoðað tölfræði Wyscout úr Pepsi Max deild karla í fótbolta síðasta sumar og komist að því hvaða menn sköruðu fram úr í deildinni í sérstökum tölfræðiþáttum.
Í síðustu vikunni fyrir nýtt Íslandsmót er nú ætlunin að skoða eitthvað af þessum topplistum sem fá flestir vanalega ekki mikla athygli í fjölmiðlum en eru mikilvægur þáttur í baráttunni inn á vellinum.