Alls er um að ræða fimmtán nemendur í árgöngunum tveimur auk fimm kennara og starfsmanna. Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, segir í samtali við Vísi að fjölskyldur sem tengist vinnustað hins smitaða hafi verið sendar í sóttkví en hún var ekki með nákvæman fjölda á reiðum höndum. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.
Vonast er til að niðurstaða fáist úr sýnatöku barnsins í kvöld eða í fyrramálið. Halldóra segir að sveitastjórnin hafi átt í samtali við almannavarnir og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um næstu skref.
Hún segir að íbúar í hreppnum hafi sloppið vel frá faraldrinum fram að þessu og hér sé um að ræða annað smitið sem upp komi í samfélaginu.
„Það kom smit hér í fyrravetur en það tengdist ekkert inn í skólann og hafði engin áhrif á grunnþjónustuna svo þetta er svona það fyrsta sem hefur þau áhrif.“