Innlent

Hættustig vegna hættu á gróðureldum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá gróðureldum í Heiðmörk.
Frá gróðureldum í Heiðmörk. Vísir/Vilhelm

Búið er að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum allt frá Breiðafirði og austur undir Eyjafjöll. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Þar segir að ríkislögreglustjóri hafi tekið þessa ákvörðun, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi.

Ákvörðunin byggir á því að undanfarið hefur lítið rignt á þessu svæði og að lítil rigning sé í kortunum. Áður var búið að lýsa yfir óvissustigi en nú hefur það verið hækkað í hættustig.

Samhliða því hafa slökkviliðsstjórar á svæðinu ákveðið að banna meðferð opins elds. Þetta þýðir að opinn eldur er í raun bannaður frá Breiðafirði að Eyjafjöllum.

Í áðurnefndri tilkynningu segir að bann slökkviliðsstjóra við opnum eldi sé í samræmi við reglugerð nr. 325/2016. Þar er opinn eldur skilgreindur sem „allur eldur sem kveiktur er utandyra, þ.m.t. þegar kveikt er í bálkesti eða sinu“.

„Slökkviliðsstjóri getur stöðvað leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum,“ segir í tilkynningunni.

Bannið tekur gildi í dag og nær til sama svæðis og hættustigið. Það gildir þar til því verður aflétt og brot varða sektum.


Almenningur og  sumarhúsaeigendur á svæðinu eru hvattir til að:

  • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
  • Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
  • Kanna flóttaleiðir við sumarhús
  • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
  • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
  • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
  • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er

Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda:

www.grodureldar.is

https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.


Tengdar fréttir

Gróðureldur í Grímsnesinu

Slökkviliðsmenn af Suðurlandi vinna nú að því að slökkva gróðureld sem logar í Grímsnesinu á Suðurlandi.

Heiðmerkureldurinn minni en áætlað var í fyrstu

Umfang gróðureldsins í Heiðmörk í síðustu viku var þó nokkuð minni en slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu áætlaði í fyrstu. Miðað við tölur Skógræktarfélags Reykjavíkur var eldurinn sá þriðji stærsti á landinu undanfarin fimmtán ár.

Mosa­eldar við gos­stöðvarnar á­hyggju­efni

Lokað er inn á svæði í kring um gosstöðvarnar á Reykjanesi í dag. Mikil mengun er á svæðinu, bæði frá eldstöðvunum sjálfum auk þess sem mikinn reyk leggur yfir svæðið vegna gróðurelda. Vettvangsstjóri segir að eldarnir séu erfiðir viðureignar en þeir brenni mest í mosa sem þekji svæðið.

Fjögur út­köll vegna gróður­elda frá því Heið­mörk brann

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur slökkt fjóra sinuelda frá því það slökkti gróðureld í Heiðmörk síðastliðinn fimmtudag. Varðstjóri segir að lítið þurfi til að kveikja sinubruna og að í sumum tilfellum sé grunur um íkveikju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×