Þegar ráðherrabílstjóri Sigurðar Inga keyrir hann heim í Syðra Langholt í Hrunamannahreppi eftir langan og strangan vinnudag þá er oftast fyrsta verk Sigurðar að klæða sig úr ráðherrafötunum og fara í hestafötin því hann og Elsa Ingjaldsdóttir, konan hans eru að rækta hross á staðnum. Nú voru þau að fá fyrsta folald vorsins og eru að sjálfsögðu rígmontin með það.

„Folaldið er undan rauðri meri, sem heitir Gleði og graðhesti, sem heitir Draupnir og er líka leirljós eins og folaldið. Þetta er það skemmtilegasta við hestamennskuna, rækta og vonast til að fá það, sem maður er að sækjast eftir. Það stóð til núna að fá leirljóst og fallegt, helst meri, maður fær ekki allt, þetta er hestur en hann er gullfallegur,“ segir Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi, sem er dýralæknir segir að fylfullar merar hafi þann einstaka hæfileika að geta frestað köstun um nokkrar vikur sé mjög kalt úti, ekki síst á nóttunni, eins og verið hefur í vor.
„Já, Gleði átti að kasta í byrjun maí en hún lét bíða eftir sér í rúma viku. Þær gera það jafnvel stundum lengur ef það er mjög kalt.“
Móðir Gleði er brún og heitir Urður. Hún gengur nú með sitt 12 folald en Gleði var að kasta sínu fyrsta.
En er komið nafn á folaldið?
„Elsa átti einu sinni leirljósan hest, sem hét Geisli. Hún er allavega búin að leggja þá pöntun inn. Ætli ég verð ekki við því,“ segir Sigurður Ingi glottandi.
