Í dómnum kemur fram að Augustin hafi notfært sér það að konan hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga. Hún hafði verið á skemmtanalífinu með vinnufélögum sínum en varð viðskila við þá.
Brotið átti sér stað aðfaranótt 21. mars 2019 en í dómnum segir að konan hafi vaknað klukkan rúmlega fimm um nóttina í ókunnri íbúð við það að ókunnugur maður væri að hafa við hana samfarir.
Síðar sama dag fór hún á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota og gaf lögreglu skýrslu um málið, sem tók þá til við að rannsaka það.
Við rannsóknina var stuðst við upptökur úr öryggismyndavélum skemmtistaða, símagögn og upplýsingar úr heilsuforriti í síma konunnar. Í kjölfarið komst lögregla að því hver maðurinn væri og handtók hann.
Breytti framburði sínum ítrekað
Í fyrstu neitaði Augustin að hafa átt í nokkrum samskiptum við konuna. Í annarri skýrslutöku í málinu breytti hann þó framburði sínum og viðurkenndi að hann hefði verið í samskiptum við konuna en neitaði að nokkuð kynferðislegt hefði farið fram á milli þeirra. Í þriðju skýrslutöku breytti hann svo aftur framburði sínum og sagðist þá að hafa stundað kynlíf með konunni í stigaganginum að íbúð sinni.
Þessi framburður mannsins í skýrslutökum lögreglunnar þótti eðlilega óstöðugur og ósannfærandi. Á meðan þótti framburður konunnar stöðugur og skýr um þau atvik sem hún mundi eftir umrædda nótt.
Við rannsókn málsins nýttust þá gögn úr heilsuforriti í síma konunnar vel en þær sýndu til dæmis að margt í framburði Augustins stæðist ekki. Í síðustu skýrslutöku yfir honum þegar hann hafði játað að hafa farið með henni heim til sín, lýsti hann leiðinni sem þau áttu að hafa gengið og kvað þau hafa verið 40 mínútur á leiðinni.
Gögn forritsins sýndu þó að konan hefði labbað mun styttri vegalengd en hann lýsti og sýndu að ferðin hefði líklega verið farin í bíl.