Rannsóknin leiddi í ljós að ráðskast hafi verið með Díönu á óeðlilegan hátt, í þeim tilgangi að fá hana til að veita samþykki sitt fyrir að mæta í viðtal.
Gagnrýni hefur lengi beinst að BBC vegna viðtalsins, sér í lagi frá fjölskyldu Díönu, þar sem fullyrt hefur verið að starfsmenn BBC hafi náð samkomulagi um viðtalið á fölskum forsendum.
Viðtalið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þar sem prinsessan ræddi meðal annars vandamálin í hjónabandi sínu og Karls Bretaprins. Í viðtalinu sagði Díana eftirminnilega: „Við vorum þrjú í þessu hjónabandi. Það var fremur fjölmennt.“
Vísaði hún þar í samband eiginmanns síns og Camillu Parker-Bowles.
Núna, aldarfjórðungi síðar, hefur BBC í fyrsta skipti beðist afsökunar á viðtalinu sem sýnt var í þættinum Panorama 20. nóvember 1995.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem dómarinn fyrrverandi Lord Dyson leiddi, kemur fram að Bashir hafi notast við óheiðarlegar aðferðir til að fá Díönu til að greina frá vandamálunum í hjónabandi þeirra Karls. Sömuleiðis hafi BBC hylmt yfir vinnubrögð Bashirs og þannig ekki staðið undir þeim kröfum sem BBC geri til sjálfs sín.
Svo virðist sem að Bashir hafi sýnt Earl Spencer, bróður Díönu, fölsuð skjöl í þeim tilgangi að koma á trausti þeirra í millum, til að Spencer myndi kynna Bashir fyrir Díönu.
Bashir hefur sagt að hann sjái eftir því hvernig að viðtalinu var staðið, en að hann sé þó enn gríðarlega stoltur af viðtalinu sjálfu.