Körfubolti

NBA dagsins: James vann uppgjörið við Curry með augnvökva og ótrúlegum þristi

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James var brosmildur þegar hann ræddi við Stephen Curry eftir sigurinn.
LeBron James var brosmildur þegar hann ræddi við Stephen Curry eftir sigurinn. AP/Mark J. Terrill

LeBron James fékk góðan slatta af augnvökva eftir að Draymond Green slæmdi fingri í auga hans og setti niður ótrúlegan sigurþrist fyrir LA Lakers gegn Golden State Warriors í nótt.

Sigurkarfan kom talsvert utan þriggja stiga línunnar en þá voru enn 58 sekúndur eftir. Stephen Curry, sem skoraði 37 stig fyrir Golden State, átti að fá boltann í lokasókn liðsins og freista þess að jafna metin en náði ekki taki á honum.

Svipmyndir úr leiknum má sjá í NBA dagsins hér að neðan, sem og svipmyndir úr sigri Memphis Grizzlies á San Antonio Spurs. Lakers eru nú komnir í úrslitakeppnina en Memphis og Golden State bítast um síðasta lausa sæti vesturdeildarinnar annað kvöld.

Klippa: NBA dagsins 20. maí

LeBron James var ekkert að missa sig af gleði þrátt fyrir að nú væri sætið í úrslitakeppninni loksins tryggt.

„Þarna voru tvö af heitustu liðum deildarinnar undanfarið að mætast. Bæði lið spiluðu á háu stigi og við vissum að þeir myndu leggja allt í sölurnar. Þeir voru með tak á okkur í fyrri hálfleik og við þurftum að bregðast við, gerðum það varnarlega og fengum gott framlag frá mönnum af bekknum,“ sagði James.

Aðspurður um sigurkörfuna sagði hann: „Ég legg mikið á mig fyrir þessa íþrótt. Eftir að ég fékk fingurinn í augað þá sá ég bókstaflega þrjá hringi og reyndi að skjóta í þennan í miðjunni. Sem betur fer fór boltinn ofan í,“ sagði James sem sagði aldrei hafa komið til greina að hætta leik út af augnpotinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×