Guðlaugur Victor kemur til móts við nýju liðsfélaga sína í Schalke þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar. Hann hefur leikið með Darmstadt í tvö og hálft ár í þýsku 2. deildinni og mun áfram leika í sömu deild því Schalke féll úr efstu deild, eftir samfellda veru þar frá árinu 1988.
Schalke vann aðeins þrjá leiki í vetur og fékk 16 stig í 34 leikjum, en nú ætlar félagið að spyrna við fótum og koma Guðlaugs Victors er liður í því.
„Ég vil verða leiðtogi liðsins innan sem utan vallar. Við ætlum að endurreisa liðið algjörlega. Ég vil að reynsla mín verði lóð á þær vogarskálar og til að Schalke vinni eins marga leiki og hægt er,“ sagði Guðlaugur Victor við heimasíðu Schalke.
Guðlaugur Victor er uppalinn í Fjölni og Fylki en fór 16 ára gamall í unglingaakademíu Aarhus í Danmörku. Þaðan fór hann til enska stórliðsins Liverpool. Hann hefur svo leikið með Hibernian í Skotlandi, New York Red Bulls í Bandaríkjunum, NEC í Hollandi, Helsingborg í Svíþjóð, Esbjerg í Danmörku og Zürich í Sviss.
Guðlaugur Victor, sem á að baki 26 A-landsleiki, gaf ekki kost á sér í íslenska landsliðshópinn sem mætir Mexíkó, Póllandi og Færeyjum í vináttulandsleikjum á næstunni.