Lúkasjenka, sem er gjarnan kallaður síðasti einræðisherra Evrópu, hefur verið sakaður um svindl í öllum forsetakosningum utan þeirra fyrstu sem hann vann árið 1994. Hann hefur alltaf átt sér andstæðinga en þeir hafa náð litlum árangri hingað til.
Í aðdraganda kosninga síðasta árs myndaðist raunveruleg fjöldahreyfing gegn Lúkasjenka. Fram á mitt sumar var hver frambjóðandinn á fætur öðrum handtekinn og framboð þeirra ógild. Stjórnarandstæðingar sameinuðust á bak við Svíatlönu Tsíkanúskaju, sem tók við framboði eiginmanns síns og naut mikils stuðnings.
Lúkasjenka var sagður sigurvegari kosninganna 9. ágúst. hundruð þúsunda um allt land og fá ríki samþykktu niðurstöðurnar. Mótmæli og verkföll hafa verið tíð allar götur síðan.
Ritskoðun og pyntingar
Stjórnvöld hafa ritskoðað umfjöllun af krafti sem olli því að Telegram-síðan Nexta varð leiðandi í fréttaflutningi af mótmælum og pyntingum sem stjórnarandstæðingar mega þola.
Roman Protasevíts, maðurinn sem var handtekinn eftir að flugvél RyanAir var látin lenda í Minsk, var ritstjóri Nexta þegar mótmælin stóðu sem hæst. Hann hefur verið áhrifamikill stjórnarandstæðingur undanfarinn áratug en sótti um hæli í Póllandi í fyrra.

Hvítrússar hafa nú birt játningu Protasevíts, sem er meðal annars sakaður um að stofna til óeirða. Stjórnarandstæðingar segja játninguna þvingaða og hann pyntaðan.
Handtakan hefur sætt mikilli gagnrýni í Evrópu. Fjöldi flugfélaga hefur hætt ferðum til landsins og hvítrússneskum félögum er bannað að fljúga yfir Evrópusambandsríki.
Flugbann leysi ekkert
Heimamenn mótmæla stjórn Lúkasjenkas enn á ný og Tsíkanúskaja, sem flúði til Litáens í fyrra, segir þörf á raunverulegum, alþjóðlegum þrýstingi.
„Það eitt að banna flug yfir Hvíta-Rússlandi leysir ekkert. Raunverulega vandamálið er hryðjuverkastjórnin sem svindlaði í kosningunum, brýtur gegn stjórnarskránni trekk í trakk og gegn alþjóðalögum sömuleiðis,“ sagði Tsíkanúskaja.