Körfubolti

Helena tók bæði stigametið og frákastametið af Önnu Maríu í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með Val á móti Haukum í úrslitaeinvíginu. Helena átti sinn besta leik í langan tíma á Ásvöllum í gær.
Helena Sverrisdóttir í leik með Val á móti Haukum í úrslitaeinvíginu. Helena átti sinn besta leik í langan tíma á Ásvöllum í gær. Vísir/Bára

Helena Sverrisdóttir er eftir gærkvöldið sá leikmaður sem hefur skorað mest, tekið flest fráköst og gefið flestar stoðsendingar í lokaúrslitum kvenna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Helena náði tveimur af þessum metum í gærkvöldi og bæði voru þau áður í eigu Keflvíkingsins Önnu Maríu Sveinsdóttur. Helena var með 21 stig, 15 fráköst og 9 stoðsendingar í þessum öðrum leik Vals og Hauka í úrslitaeinvígi Domino's deildar kvenna.

Helena hefur nú skorðað 466 stig, tekið 261 frákast og gefið 171 stoðsendingu í 21 leik sínum í lokaúrslitum úrslitakeppninnar sem gera 22,2 stig, 12,4 fráköst og 8,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Helena hafði áður slegið stoðsendingamet Hildar Sigurðardóttur í lokaúrslitunum 2019. Helena er nú komin með 31 stoðsendingu í forskot á Hildi.

Anna María Sveinsdóttir var með sextán stiga og þriggja frákasta forskot á Helenu fyrir leikinn í gær. Anna María á enn metið yfir flesta stolna bolta í lokaúrslitum kvenna. Helena er enn 37 stolnum boltum frá því og því er eitthvað í það að hún nái Önnu Maríu þar.

  • Flest stig í lokaúrslitum kvenna
  • 1. Helena Sverrisdóttir 466 stig
  • 2. Anna María Sveinsdóttir 461 stig
  • 3. Hildur Sigurðardóttir 415 stig
  • 4. Guðbjörg Norðfjörð 391 stig
  • 5. Helga Þorvaldsdóttir 384 stig
  • -
  • Flest fráköst í lokaúrslitum kvenna
  • 1. Helena Sverrisdóttir 261 frákast
  • 2. Anna María Sveinsdóttir 246 fráköst
  • 3. Hildur Sigurðardóttir 225 fráköst
  • 4. Bryndís Guðmundsdóttir 219 fráköst
  • 5. Birna Valgarðsdóttir 194 fráköst
  • -
  • Flestar stoðsendingar í lokaúrslitum kvenna
  • 1. Helena Sverrisdóttir 171 stoðsending
  • 2. Hildur Sigurðardóttir 140 stoðsendingar
  • 3. Anna María Sveinsdóttir 106 stoðsendingar
  • 4. Alda Leif Jónsdóttir 96 stoðsendingar
  •  5. Bryndís Guðmundsdóttir 90 stoðsendingar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×