Of snemmt að leggja mat á skemmtanalíf helgarinnar
Þórólfur segir tölur gærdagsins ekki afleiðingar skemmtanalífs um helgina, en almannavarnir höfðu áhyggjur af því að helgin gæti skilað sér í fjölgun smitum.
„Nei það virðist ekki vera það. Þessi eini fyrir utan sóttkví tengist þessu smiti sem hefur verið kennt við verslunina HM og virðist frekar tengjast því, enda er þetta svolítið snemmt eftir helgina og við förum ekki að geta lagt mat á síðustu helgi fyrr en í lok þessarar viku,“ sagði Þórólfur Guðnason.
Kórónuveirusmit hefur greinst í starfsmannahópi verslunar HM í Kringlunni. Allir starfsmenn verslunarinnar hafa verið sendir í sjö daga sóttkví og er verslunin því lokuð í dag á meðan unnið er að sótthreinsun hennar.
Þórólfur segir að búast megi við svipuðum smittölum næstu daga.
„Við erum ekki að sjá neina aukningu þannig að smitrakningin og þessar aðgerðir sem eru í gangi virðast duga til að halda þessu í skefjum og halda þessu niðri. Og það er bara út af fyrir sig gott en ég held að við verðum kannski eitthvað áfram með svona tölur en vonandi förum við ekki að sjá neina aukningu í þessu.“
Aukið eftirlit með fólki í sóttkví
Reglugerð um skyldudvöl á sóttkvíarhóteli er fallin úr gildi. Á móti hefur eftirlit með fólki í sóttkví verið aukið.
„Hún var nú kannski að falla úr gildi nokkurn vegin að sjálfu sér því lönd voru að fara af þessum hááhættu lista þannig að það var að gerast. Við þurfum að bregðast við með því að vera með gott eftirlit með fólki sem er í sóttkví og reyna að tryggja eins og hægt er að fólk fari eftir reglum,“ sagði Þórólfur.