Tsikhanouskaja flúði herferð ríkisstjórnar Lúkasjenka gegn mótmælendum í kjölfar umdeildra forsetakosninga í haust. Hún hefur verið í útlegð síðan þá, fyrst í Litháen og síðar Póllandi.
Í viðtali við Reuters-fréttastofuna segist hún fullviss um að ástandið í Hvíta-Rússlandi verði tekið á dagskrá G7-ríkjanna þegar þau funda í Bretlandi í næstu viku. Hún hefði þó ekki fengið boð um að mæta á fundinn. Frönsk stjórnvöld hafa sagst vilja bjóða fulltrúum hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar á fundinn. Bresku gestgjafarnir hafa sagt engin áform um að bjóða fleirum til fundarins.
„Þrýstingurinn er öflugri þegar þessi ríki vinna saman og við biðlum til Bretlands, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Úkraínu. Þau verða að vinna saman svo að rödd þeirra verði háværari,“ segir Tsikhanouskaja.
Bretland, Bandaríkin og Evrópusambandið hafa öll lagt viðskiptaþvinganir og ferðabönn á hóp hvítrússneskra embættismanna eftir að stjórn Lúkasjenka þvingaði farþegaflugvél Ryanair til að lenda í Minsk til að hafa hendur í hári blaða- og andófsmannsins Romans Protesevits sem var um borð.
Hvítrússneskir stjórnarandstæðingar vilja að vesturveldin gangi enn lengra með aðgerðum sem hafi meiri áhrif á efnahag landsins, til dæmis í formi viðskiptatakmarkana á steinefni eða olíu sem Hvítrússar flytja úr landi.