Belgía og Rússland mættust í B-riðli Evrópumótsins í kvöld. Líkt og hefur viðgengist á fjölda íþróttaviðburða undanfarna mánuði þá krupu Belgar fyrir leik til að mótmæla kynþáttahatri og fordómum almennt.
Ekki nóg með að leikmenn Rússa hafi staðið er Belgar krupu þá var baulað á Belgana úr stúkunni en leikurinn fór fram í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Það var ekki nóg til að slá Belgana út af laginu en gestirnir unnu þægilegan 3-0 sigur.
Mikil umræða hefur verið í upphafi EM þar sem sum lið virðast ekki stefna á að krjúpa fyrir leiki sína. Þá baulaði fjöldi stuðningsmanna enska landsliðsins er leikmenn þess krupu fyrir vináttulandsleik á dögunum.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.