Alþingi lauk störfum í nótt og eru þingmenn nú komnir í sumarfrí. Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata er ósáttur við að mikilvæg mál sem stóð til að klára á þessu kjörtímabili hafi ekki verið kláruð.
„Það sem við erum náttúrulega mjög ósátt við er það að afglæpavæðing fíkniefnavörslu að hún sé ekki eins og lofað var að skyldi klára. Við fengum okkar atkvæðagreiðslu um það fyrir ári síðan. Það var fellt með því vilyrði að þetta yrði síðan samþykkt núna sem það var ekki. Það eru náttúrulega bara grundvallarréttindi svo ofboðslega margra sem eru bara utangarðs og lifa í raun og veru við mannréttindi eins og við þekktum kannski fyrir hundrað tvö hundrað árum síðan. Þannig að þessi réttindabót er eitthvað sem okkur svíður undan að hafi ekki verið náð í gegn.“
Jón Þór segir ljóst að þrátt fyrir að leiða ríkisstjórnina sé ljóst að Vinstri-grænir hafi ekki náð að ljúka málum sem flokkurinn hefur talið mikilvæg. „Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, afglæpavæðingin og hálendisþjóðgarðurinn þessi stóru mál eru ekki að skila sér í þessu stjórnarsamstarfi,“
Katrín Jakobsdóttir sagði í fréttum okkar í gær að vel koma til greina að stjórnarflokkarnir starfi áfram saman eftir kosningar nái þeir meirihluta á þingi.
„Það virðist vera þetta í kortunum að landsmenn treysta Katrínu best til að vera forsætisráðherra og hún líklega hefur þá þessi spil að velja hvort hún þá áfram vill vera með íhaldsflokkunum eða hvort hún vill umbótastjórn sem að getur náð þessum málum í gegn og þá sér í lagi hvað okkur Pírata varðar stjórnarskrána sem er forsenda fyrir því að við förum í stjórnarsamtarf,“ segir Jón Þór.