Þetta sagði hann í viðtali við vestfirska miðilinn Bæjarins besta í dag.
Þar sagði hann að það væru skýr skilaboð frá flokksmönnum ef þeir vildu annan en hann í fyrsta sætið. „Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.“
Fáheyrt að þingmaður vinni ráðherra og varaformann
Margt hefur breyst frá því að þau Haraldur og Þórdís Kolbrún háðu saman baráttu fyrir flokkinn í kjördæminu fyrir síðustu alþingiskosningar. Haraldur leiddi þá listann og var Þórdís Kolbrún í öðru sætinu. Þau voru þau einu á listanum sem komust á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi.
Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins var mynduð var Þórdísi Kolbrúnu hins vegar boðið ráðherrasæti, sem ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en ekki Haraldi. Hún varð síðan varaformaður flokksins í mars 2018.
Það er því nokkuð sérstök staða uppi í kjördæminu hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er auðvitað fáheyrt að varaformaður og ráðherra flokks tapi í oddvitaslag í kjördæmi sínu en eftir því sem Vísir kemst næst er tvísýnt um úrslitin og gæti vel farið svo að Haraldur vinni en hann á sterkt bakland í kjördæminu.