Skipið strandaði við bæinn Lerstad í Álasundi klukkan eitt að staðartíma en samkvæmt frétt NRK nær stefni skipsins minnst þrjá metra inn í fjöruna.
Samkvæmt norsku lögreglunni eru skipverjarnir ekki í neinni hættu en unnið er að því að koma skipinu aftur út. Það er í verkahring Eimskips að bjarga því. Ekki er talið að skipið leki.
Skipið ber heitið Hólmfoss og er um 88 metra langt frysti- og gámaskip. Það var á leið sinni milli hafna í Álasundi.
Uppfært klukkan 14:00:
Skipið er komið á flot
Að sögn Eddu Rutar Björnsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Eimskips er skipið komið aftur á flot og leggur að bryggju í Álasundi innan skamms.
Það eru einhverjar skemmdir á því en þær eru ekki meiri en svo að skipið getur siglt þangað á eigin vélarafli.
Þegar það leggur að bryggju verða skemmdirnar metnar.
Edda Rut segir það ekki liggja fyrir hvernig skipið strandaði en það verður skoðað betur í dag.
Erfiðir dagar hjá Eimskipi
Síðasta vika hefur verið erfið fyrir Eimskip. Fyrirtækið gekkst í gær við alvarlegum brotum gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með sátt við Samkeppniseftirlitið upp á einn og hálfan milljarð króna.
Reykur kom einnig upp í gámi um borð í Brúarfossi síðasta mánudag. Skipið var við höfn í Þórshöfn og varð slökkvilið að dæla vatni inn í gáminn.