Körfubolti

Maðurinn sem fékk Jón Arnór til Dallas rekinn frá Dallas Mavericks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donnie Nelson hafði mikla trú á Jóni Arnóri Stefánssyni á sínum tíma.
Donnie Nelson hafði mikla trú á Jóni Arnóri Stefánssyni á sínum tíma. Getty/Luca Sgamellotti

Donnie Nelson var rekinn sem framkvæmdastjóri Dallas Mavericks í vikunni en hann hefur starfað fyrir félagið í 24 tímabil.

Samkvæmt tilkynningu frá Dallas Mavericks áttu Donnie Nelson og félagið að hafa komist að samkomulagi um starfslok en í raun var það eigandinn Mark Cuban sem rak hann.

Í kjölfarið fréttist það síðan að þjálfarinn Rick Carlisle ætli ekki að klára tvö síðustu tímabilin í samningi sínum og sé hættur sem þjálfari Dallas Mavericks eftir þrettán ár. Það virðist því vera einhvers konar hreinsun í gangi hjá Dallas liðinu.

Íslendingar ættu að kannast við Donnie Nelson enda var hann aðalmaðurinn í að fá Jón Arnór Stefánsson til Dallas Mavericks sumarið 2003.

Jón Arnór stóð sig síðan svo vel að hann fékk fimm ára samning. Jón Arnór spilaði á undirbúningstímabilinu en fékk ekkert að spila í deildarkeppninni. Hann ákvað síðan að hætta hjá Dallas eftir þetta tímabil.

Donnie Nelson hafði mikla trú á Jóni og sá mikið í honum. Jón Arnór vildi hins vegar fá að spila og fór til Rússland eftir þetta tímabil.

Jón Arnór var einn af fyrstu leikmönnunum frá Evrópu sem Donnie Nelson fékk til félagsins en annars var Dirk Nowitzki og sá nýjasti er stórstjarnan Luka Doncic.

Luka Doncic hefur slegið í gegn með Dallas liðinu en slóvenski bakvörðurinn var mjög ósáttur með að Donnie Nelson hafi þurft að taka pokann sinn.

„Þetta var frekar erfitt fyrir mig. Ég kunnu rosalega vel við Donnie. Ég hef þekkt hann síðan ég var strákur og það var hann sem valdi mig inn í deildina. Það var erfitt að sjá þetta gerast en það er ekki ég sem tek þessar ákvarðanir,“ sagði Luka Doncic þegar hann hitti blaðamenn í verkefni með slóvenska landsliðinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×