Success er nú komið inn á efnisveituna Spotify. Silja Rós segir að þetta sé svöl RnB Pop ballaða með hip-hop blæ. Þetta er fjórða lagið sem Silja Rós setur í loftið af væntanlegri plötu sinni Stay Still. Upptökustjórarnir Whyrun & Slaemi sáu um upptökur og mix og Skonrokk sá um masteringu.
Success varð til í Los Angeles þar sem Silja Rós var búsett í nokkur ár.
„Lagið er samið um óþarfa samkeppni sem getur skapað spennu á milli fólks. Ég hef aldrei verið hrifin af samkeppni og þrífst mjög illa í þannig aðstæðum. Ég reyni frekar að einblína á stuðning og umvefja mig fólki sem styður mig jafnt og ég styð það, segir Silja Rós um nýja lagið. Maður finnur alltaf fyrir því ef fólk setur annaðhvort sjálfan sig á hærri eða lægri stall og það getur skapað óþægilega stemningu. Ég trúi því að við séum öll jöfn og ættum öll að geta litið á hvort annað sem jafningja. Sannleika satt er ég bara ótrúlega viðkvæmt lítið blóm og þegar aðrir hafa dregið mig í samkeppni verð ég bara mjög lítil í mér og fullkomnunaráráttan tekur yfir. Ég hef virkilega þurft að vinna fyrir sjálfstraustinu mínu,“ segir Silja Rós um lagið.
Eftir margra ára búsetu erlendis í LA og Kaupmannahöfn þar sem hún starfaði sem leikkona, lagahöfundur, söngkona og jógakennari er Silja Rós flutt til Íslands. Hún segir flutningana spennandi og tekur nýjum verkefnum fagnandi.
„Síðan ég útskrifaðist sem leikkona hef ég ekki mikið verið á Íslandi þó ég sé mjög heimakær. Ég er ótrúlega þakklát fyrir árin úti og þau tækifæri sem ég fékk þar en ég er líka ánægð með að vera komin til Íslands. Síðasta ár var frekar óhefðbundið og eyddi ég flestum stundum í að semja og taka upp tónlist. Listakonan innra með mér er farin að sakna þess að standa á sviði og finna fyrir áhorfendum svo ég vona að aðstæður verði betri til þess á næstu mánuðum. Það var stórkostleg tilfinning um daginn þegar ég söng í fallegu sumarbrúðkaupi í Kaupmannahöfn eftir margra mánuða pásu. Það er ekkert betra en að gleðja fólk með tónlist og leiklist. Samgleðjumst hvort öðru og þorum að fylgja hjartanu.“
Lagið Success er komið út á Spotify og má einnig heyra í spilaranum hér fyrir neðan.

