Taka skal fram að þetta er eingöngu skoðun blaðamanns og er aðallega gert til skemmtunar.
Lof
Upplegg Breiðabliks
Eftir jafnar upphafsmínútur í leik Breiðabliks og FH þá tóku Blikar öll völd á vellinum og keyrðu einfaldlega yfir Hafnfirðinga. Leikkerfi Breiðabliks kom á óvart að því leytinu til að Höskuldur Gunnlaugsson lék í stöðu hægri bakvarðar en sótti mikið inn á miðjuna.
Sú hugmynd gekk frábærlega og þó Breiðablik hafi unnið 4-0 var sigurinn síst of stór.
Hannes Þór Halldórsson
Var stórkostlegur í 3-1 sigri Vals á Breiðablik fyrir nokkrum dögum síðar. Átti ekki jafn frábærar vörslur í 1-0 sigri Íslandsmeistaranna á KA er liðin mættust á Dalvík en varði að engu síður vítaspyrnu og á því skilið lof. Ekki aðeins besti markvörður Pepsi Max deildarinnar heldur sá langbesti.
Þá lét hann einnig til sín taka eftir leik.
Frábær fyrirmynd sem Hannes Þór Halldórsson er. Gaf sér tíma til að sitja fyrir á myndum með dalvískum krökkum og spjalla við þau eftir leik. Mörg sólskinsbros sem hann skapaði með því #respect #virðing #fotboltinet
— Magni Þór Óskarsson (@magnitoro) June 20, 2021
Joey Gibbs
Annan leikinn í röð vinna Keflvíkingar. Annan leikinn í röð heldur Keflavík hreinu. Annan leikinn í röð skorar Josep Arthur Gibbs. Hann fær því hrósið þó svo að margir aðrir leikmenn liðsins hafi komið til greina eftir góðan 1-0 sigur á Leikni Reykjavík.
Helgi Valur Daníelsson
Það hefur verið mikið rætt og ritað um háan aldur leikmanna í Pepsi Max deildinni það sem af er sumri en það er öllum ljóst að ef Helgi Valur á góðan leik þá á Fylkir góðan leik. Hann lenti í ömurlegum meiðslum á síðustu leiktíð og var talið að skórnir færu aftur upp í hillu, þessi þaulreyndi miðjumaður var hins vegar ekki á því.
Helgi Valur skoraði sitt fyrsta mark í sumar með góðu skoti úr teignum er hann jafnaði metin í 3-1 sigri Fylkis á ÍA. Hann gerði sig í kjölfarið líklegan til að bæta við marki en lét sér nægja að leggja upp þriðja mark Árbæinga þó svo að það mark skráist alfarið á markvörð Skagamanna, meira um það hér að neðan.
Last
Dino Hodžić
Dino átti ekki sinn besta leik í 3-1 tapi Skagamanna gegn Fylki. Annað mark Fylkis fór hálfpartinn í gegnum markvörðinn hávaxna en mögulega sá hann boltann seint.
Þriðja mark Fylkis skráist hins vegar alfarið á Dino sem missti aukaspyrnu af þröngu færi í gegnum klofið og yfir línuna. Má segja að það mark hafi endanlega gert út um leikinn.

Ósýnilegir FH-ingar
Hafnfirðingar hafa nú spilað fimm leiki án þess að landa sigri. Það sem meira er þá hefur liðið aðeins skorað tvö mörk í þessum fimm leikjum. Hér væri hægt að lista upp nánast allt byrjunarlið FH en liðið beið afhroð á Kópavogsvelli. Lokatölur 4-0 og sigur Blika síst of stór.
Margir FH-ingar virtust annað hvort nær ósýnilegir í leiknum þar sem þeir sáust einfaldlega ekki eða þegar þeir sáust þá þóttust þeir vera að leika keilur. Besta dæmið um það var annað mark Blika sem má sjá í spilaranum hér að neðan. Það var líkt og Blikar væru í uppspils æfingu þar sem ekki mætti klukka liðið með boltann.
Vítaspyrnur KA manna
KA brenndi af tveimur vítaspyrnum í 0-1 tapi gegn Val. Akureyringar hafa nú brennt af fjórum vítaspyrnum í röð og gætu þau verið dýrkeypt þegar uppi er staðið. Hallgrímur Mar Steingrímsson brenndi af víti í 0-1 tapi gegn Víkingum. Jonathan Hendrickx og Sebastiaan Brebels gerðu svo slíkt hið sama í þessu 0-1 tapi gegn Val.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.